Sendifulltrúi Rauða kross Íslands metur neyðarástand í Sýrlandi

31. ágú. 2009

Kristjón Þorkelsson sérfræðingur í vatns- og hreinlætismálum fór til Sýrlands á laugardaginn til að meta alvarlegt ástand vegna þurrka í Sýrlandi og finna leiðir til úrbóta. Eftir það mun Alþjóða Rauði krossinn ákveða hvort gefið verði út alþjóðlegt neyðarkall. Talin er hætta á alvarlegum skorti á drykkjarvatni á næstu vikum og rafmagnsleysi verði ekki breyting á ástandinu.

Langvarandi þurrkar í austurhluta Sýrlands hafa hrakið fólk úr sveitum í útjaðra borga og bæja þar sem ekki eru skilyrði til búsetu. Við slíkar aðstæður er mikil hætta á allkonar smitsjúkdómum þar sem heilbrigðisþjónustu er ábótavant og skortur er á drykkjarvatni. Þúsundir manna hafa nú hrakist frá heimilum sínum en 1,3 milljónir manna eru mjög illa staddir vegna skorts á vatni.

Vatnsborð í ám landsins hefur lækkar vegna þurrka undanfarinna ára og einnig hafa stíflur verið byggðar til virkjunar sem veldur minna vatnsmagni í ánum. Bændur fá ekki nægjanlegt vatn til neyslu né áveitna, ræktarland þurrkast upp og búfénaður drepst. Talið er að margir bændur hafi misst allt að 80% af búpeningi og lífsviðurværi.

Fyrir er í Sýrlandi fjöldi flóttamanna frá Írak sem hafa hrakist þaðan vegna langvarandi stríðsátaka og viðvarandi þurrka sérstaklega í norðurhluta Íraks. Sýrland hefur hingað til verið gott land til ræktunar.