Að haga sér í samræmi við aðstæður

9. okt. 2009

Öryggis- og streitustjórnunarnámskeið var haldið fyrir Veraldarvakt Rauða krossins í Bláfjöllum. 17 þátttakendur sóttu námskeiðið, sem voru aðallega úr hópi sendifulltrúa Rauða krossins, en að auki voru meðlimir frá Landsbjörgu og blaðamenn. Markmið námskeiðsins var að undirbúa sendifulltrúa fyrir störf á vettvangi.

Kynntar voru öryggisreglur Rauða kross hreyfingarinnar og rætt um þær aðstæður sem upp kunna að koma við hjálparstörf erlendis og sem kunna að hafa áhrif á öryggi starfsmanna. Rætt var um orsakir og afleiðingar streitu og þátttakendum kynntar aðferðir til að draga úr streitueinkennum. Að auki sögðu tveir sendifulltrúar frá undirbúningi fyrir brottför og reynslu sinni af vettvangi.

Þátttakendur rifjuðu upp þekkingu sína í skyndihjálp, kunnáttu í akstri jeppa, notkun gervihnattasíma, GPS staðsetnigartækis, áttavita og talstöðva. Þeim voru einnig kynntar heilsufarsleg vandamál sem upp kunna að koma á vettvangi og hvernig hægt er að fyrirbyggja smit og veikindi. Einnig voru verklegar æfingar sem fram fóru utandyra þar sem líkt var eftir aðstæðum á vettvangi.

Fyrirlesarar á námskeiðinu komu frá Alþjóða Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum, landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Landhelgisgæslunni og Símanum.  
 
Fjöldi sjálfboðaliða tóku þátt í verklegu æfingunum utandyra sem og sérsveit Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan. Rauði krossinn fékk jeppa til afnota á námskeiðinu frá Toyota sem og stórt tjald frá Landsbjörgu, sem notað var sem flugskýli.

Rauði krossinn kann öllum sem að námskeiðinu komu bestu þakkir fyrir.