Sendifulltrúi Rauða kross Íslands vinnur við dreifingu hjálpargagna í hamförum

21. okt. 2009

Baldur Steinn Helgason þróunar- og skipulagsfræðingur heldur á vegum Rauða kross Íslands til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fimmtudaginn 22. október en þar mun hann starfa í birgðastjórnunarstöð Alþjóða Rauða krossins í tvo mánuði.

Birgðastjórnunarstöðin í Dubai sér um að kaupa og flytja hjálpargögn á vettvang náttúruhamfara og farsótta í Afríku, Evrópu og Mið-Austurlöndum með hagkvæmum hætti og stuðlar þannig að skjótum viðbrögðum Rauða krossins við neyð. Um þessar mundir bregst Rauði krossinn meða annars við miklum hamförum í Asíu í kjölfar flóða og jarðskjálfta sem og hungursneyð í Eþíópíu og nálægum löndum og miklum flóðum í Vestur-Afríku.

Baldur Steinn vann fyrr á árinu fyrir Alþjóða Rauða krossinn í sunnanverðri Afríku þar sem hann stjórnaði innkaupum og flutningum neyðargagna vegna flóða á svæðinu. Baldur var sendifulltrúi í Indónesíu árið 2005 og í Níger og Mali árið 2006. Áríð 2008 var hann verkefnisstjóri Rauða kross Íslands og hafði umsjón með þróunarverkefnum í sunnanverðri Afríku og vinadeildarsamstarfi.