Stuðningur Rauða kross Íslands við munaðarlaus og önnur bágstödd börn í Malaví

Hólmfríði Garðarsdóttur sendifulltrúra í Malaví

8. des. 2009

Alnæmi et eitt af alvarlegustu heilbrigðisvandamálum í suðurhluta Afríku, og frá árinu 2002 hefur Rauði kross Íslands veitt Rauða krossinum í Malaví fjárhagslega og tæknilega aðstoð til að takast á við erfiðleikana. Rauði krossinn í Malaví starfrækir öflugt alnæmisverkefni í Nkalo í Chiradzulu héraði í Malawi þar sem talið er að 19% íbúanna séu HIV-smitaðir. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á heimahlynningu fyrir þá sem þjást af alnæmi og öðrum langvinnum sjúkdómum. Þjálfaðir sjálfboðaliðar Rauða krossins vitja skjólstæðinga og veita almenningi fyrirbyggjandi fræðslu um alnæmi. Jafnframt fer fram öflugt málsvarastarf til að draga úr mismunun og fordómum gagnvart HIV-smituðum í héraðinu.

Aukin áhersla á að hjálpa börnum
Alnæmi hefur ekki aðeins valdið langvarandi veikindum og dauða þúsunda af íbúum Nkalo, heldur hefur sjúkdómurinn skilið eftir gríðarlegan fjölda munaðarlausra barna. Alls búa um 42000 manns í héraðinu, en á meðal þeirra eru 7000 börn sem misst hafa annað eða bæði foreldra sína eða eiga í miklum erfiðleikum af öðrum sökum. Árið 2006 setti Rauði krossinn á fót verkefni til aðstoðar þessum börnum. Verkefnið felst meðal annars í því að styðja börn til mennta, aðstoða við ræktun matjurtagarða, reka forskóla, krakkahorn og setja á fót ömmuklúbba.

 Rúmlega 200 börn fá stuðning til mennta
Alls fá rúmlega 200 grunnskólabörn stuðning. Þar á meðal skólabúninga, skólabækur, prófgjöld og skólagjöld. Á hverju ári fá börnin einnig föt, skó, teppi, íþróttaboli og bolta sem Rauði krossinn safnar á Íslandi og sendir til Malaví. Tveir nemendur fá svo styrk til að sækja framhaldsskóla í Lilongve, höfuðborg Malaví.

Rauði krossinn í Malaví styður einnig rekstur forskóla fyrir börn á aldrinum tveggja til fimm ára til að hjálpa þeim að þroskast og dafna. Í dag eru þessir forskólar þrír talsins en fyrirhugað er að opna þrjá til viðbótar á þessu ári. Sjálfboðaliðar Rauða krossins ásamt foreldrum og öðrum umönnunaraðilum sjá um starfið í skólunum. Allir sem vinna við skólana hafa sótt námskeið um vöxt og þroska barna hjá Rauða krossinum í Malaví.

Landsfélagið starfrækir einnig svonefnd „krakkahorn“ fyrir bágstödd börn til að bæta andlega og félagslega líðan þerra. Þar er börnunum meðal annars kennt að skilgreina vonir sínar og þrár, setja sér framtíðarmarkmið, og yfirstíga þær hindranir sem standa í vegi fyrir því að þau nái þeim. Um leið læra börnin hvernig þau geti öðlast meiri ást og stuðning í lífinu og látið gott af sér leiða.

Meira fæðuöryggi meðal þeirra sem minnst mega sín
Rauði krossinn í Malaví styrkir ræktun matjurtagarða meðal margra fjölskyldna sem hafa munaðarlaus og önnur bágstödd börn á framfæri sínu. Einnig hafa sumar af þessum fjölskyldum fengið geitur frá Rauða krossinum.

Meðal þeirra sem hafa fengið geitur eru um það bil 20 ömmur sem þurfa að sjá fyrir barnabörnum sínum. Þessar ömmur hittast reglulega í svonefndum „ömmuklúbbi“ sem var stofnaður með stuðningi Rauða krossins. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hjálpa ömmunum að hugsa um dýrin. Börnin í krakkahorni Rauða krossins hitta ömmurnar í hverri viku til að læra um siði, venjur og menningu héraðsins. Ömmurnar leggja líka mikla áherslu á jákvæðar hliðar tilverunnar og nota jafnan tækifærið á fundum sínum til að syngja og dansa af mikilli lífsgleði.

Rúmlega hundrað sjálfboðaliðar
Alls taka nú 105 sjálfboðaliðar þátt í verkefnum Rauða krossins til hjálpar bágstöddum börnum í Nkalo. Þörfin fyrir aðstoð fer sífellt vaxandi og aðeins er hægt að hjálpa broti af þeim sem þurfa á stuðningi að halda. Mörg af þeim börnum sem njóta stuðnings Rauða krossins gerast síðar sjálfboðaliðar og styðja þannig við bakið á öðrum viðkvæmum einstaklingum.