Sendifulltrúi Rauða kross Íslands til Eþíópíu

9. des. 2009

Ómar Valdimarsson sendifulltrúi Rauða kross Íslands hélt í gærkvöldi til Eþíópíu þar sem hann mun starfa að upplýsingamálum vegna mikilla þurrka sem geisað hafa í landinu og valdið miklum matvælaskorti.
 
Ómar mun starfa með alþjóðlegu matsteymi Rauða krossins fram til 22. desember. Teymið metur þörf fyrir aðstoð og aflar fjár til hjálparstarfs en talið er að allt að 300.000 manns hafi orðið fyrir barðinu á alvarlegum matvælaskorti í kjölfar þurrka í fjórum til fimm héruðum í Eþíópíu.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn Eþíópíu er áætlað að 6,3 milljónir manna í landinu þurfi á matvælaaðstoð að halda vegna þurrka. Óttast er að fjöldi nauðstaddra eigi eftir að fara vaxandi á næsta ári. Sérfræðingar Rauða krossins um matvælaöryggi hafa unnið með eþíópska Rauða krossinum síðan um miðjan nóvember við að meta þörf fyrir matvælaaðstoð, aðstoð við öflun drykkjarvatns og til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar í tveimur héruðum í Oromiya sem verst hafa orðið úti.

Ómar hefur verið sendifulltrúi Rauða kross Íslands frá árinu 1996 þegar hann vann að flóttamannaverkefni í Tansaníu. Hann starfaði á Indlandi 1997, Simbabve og öðrum löndum í sunnanverðri Afríku og í Íran árið 1998, í Papúa Nýju Gíneu og fleiri löndum í Kyrrahafinu 1999.

Frá 1999-2003 var hann forstöðumaður upplýsingaskrifstofu Alþjóðasambandsins í austur- og suðaustur Asíu og Kyrrahafi með aðsetur í Kúala Lúmpúr, Malasíu, og síðar í Bangkok, Tælandi. Ómar starfaði í Indónesíu árin 2003-2005 þar sem hann aðstoðaði indónesíska Rauða krossinn við að efla starfsemi sína og starfaði sem forstöðumaður upplýsingadeildar svæðisskrifstofu Alþjóðasambands Rauða kross félaga í Nairobi í Keníu fyrir Austur-Afríku í tvö ár frá febrúar 2006 til febrúar 2008.