Máttur manngæskunnar mikill

24. mar. 2012

Í Síerra Leóne geisaði skelfileg borgarastyrjöld í rúman áratug. Helmingur þeirra sem börðust voru börn og að stríðinu loknu beið ríkisins gríðarleg vinna við endurreisn landsins og endurhæfingu barnanna. Emmanuel Hindovei Tommy er frumkvöðull í þeirri vinnu og ræddi um vinnu Rauða krossins, stríðið og þakklæti í garð Íslendinga við Þórunni Elísabetu Bogadóttur.

„Þegar stríðið náði hámarki hafði Rauði krossinn aðgerðateymi á mörgum stöðum. Í lok bardaga fóru teymin inn í þorpin og sóttu slasaða og látna," segir Emmanuel Hindovei Tommy, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims.

Tommy var að ljúka háskólanámi sem kennari þegar borgarastyrjöld braust út í heimalandi hans árið 1991. Hann hóf störf fyrir Rauða krossinn í stríðinu og hefur verið þar allar götur síðan, þótt það hafi aldrei verið ætlunin. Hann segist hafa séð gildi þeirrar vinnu sem Rauði krossinn vinnur en samtökin hafa gegnt mikilvægu hlutverki í endurreisninni í landinu. Tommy mun í dag halda fyrirlestur á málþinginu Endurreisn eftir átök og hamfarir sem fer fram í Öskju í Háskóla Íslands eftir hádegi.

Í upphafi stríðsins hafði Rauði krossinn komið upp flóttamannabúðum, bæði fyrir þá sem þurftu að yfirgefa heimili sín innanlands en einnig þá fjölmörgu flóttamenn sem höfðu flúið borgarastyrjöldina í Líberíu. Stríðið breiddist fljótt út og var háð í öllu landinu innan skamms tíma. "Á þessum tíma voru allir innviðir landsins ónýtir. Rauði krossinn og aðrir voru í því að veita neyðaraðstoð, mat og heilbrigðisþjónustu. Þegar svo leið að lokum stríðsins kom í ljós að það voru mörg önnur vandamál sem þjóðin þurfti að taka á," segir Tommy. Í kjölfarið var haldin stór ráðstefna í Kanada um stríðið og eftirmála þess.

Börn niður í níu ára börðust
"Um stríðið hefur verið sagt að 45 þúsund manns hafi tekið beinan þátt í átökunum. Meira en helmingurinn af því var ungt fólk, allt niður í níu ára gömul börn. Börnin soguðust inn í stríðið, mörgum þeirra var rænt af stríðandi fylkingum og þau frömdu einhver mestu grimmdarverkin." Barnahermenn voru í miklu magni notaðir í stríðinu og ungum stúlkum var rænt og þeim haldið sem kynlífsambáttum, svokölluðum frumskógareiginkonum.

"Í lok stríðsins, frá 2000 til 2002, skapaðist mikill vandi við það að aflétta hernaðarástandi, afvopna fólk og koma því inn í þorpssamfélög sín á ný. Risavaxin vandamál tengdust unga fólkinu, barnahermenn pössuðu ekki inn í herinn þótt þeir hefðu fengið þjálfun. Mörg börnin höfðu enga grunnmenntun. Svo voru frumskógareiginkonurnar. Ungu stúlkurnar höfðu í lok stríðsins margar hverjar eignast börn, og jafnvel þótt þær væru barnlausar voru þær ekki velkomnar aftur í þorpin. Fjölmörg börn gátu ekki snúið aftur í þorpin, í samfélögin, vegna ódæðisverkanna sem þau frömdu. Þau voru öll brennimerkt af stríðinu og enginn vildi þau aftur."

Opnuðu athvörf fyrir börn í vanda
Rauði krossinn beindi sjónum sínum að þessum vandamálum. "Við sáum þessi börn ekki sem glæpamenn heldur sem fórnarlömb stríðsins. Við tókum þann pól í hæðina að ef við vildum endurhæfingu samfélagsins, til þess að festa friðinn í sessi, þá yrði að endurhæfa allt líf fólks og sérstaklega ungs fólks." Rauði krossinn opnaði athvörf fyrir börn á nokkrum stöðum í landinu, það fyrsta í Waterloo-héraði í byrjun árs 2001. Í athvörfin komu börn sem ekki gengu í skóla, höfðu aldrei gert það eða höfðu neyðst til að hætta. Mörg þeirra höfðu misst foreldra sína, orðið viðskila við fjölskylduna eða verið útskúfuð. Þá áttu mörg þeirra við mikil sálræn vandamál að stríða.

"Flestir skólarnir voru líka eyðilagðir í stríðinu. Börnin koma inn og þar höfum við sálrænan stuðning frá ráðgjöfum. Þá fá þau grunnmenntun, við kennum þeim að lesa, skrifa og reikna og á sama tíma veitum við starfsþjálfun. Reynt er að hjálpa þeim að öðlast sess í samfélaginu og einnig er unnið með þorpssamfélögunum til að börnin geti snúið þangað og þeim verði vel tekið." Börnin velja sér líka iðn, svo sem klæðskerasaum, smíði, múrverk, hárgreiðslu og fleira, sem þau fá þjálfun í og tæki til að stunda. Um átta þúsund börn hafa komið í þessi athvörf og lokið tíu mánaða þjálfun. "Verkefnið hefur skilað góðum árangri og níutíu prósent þeirra sem koma inn klára námið og hefja nýtt líf. Við fylgjum þeim eftir í hálft ár til að sjá hversu vel þau aðlagast."

Fátæktin stærsta vandamálið
Tommy sér fyrir sér að athvörfin haldi áfram í einhvern tíma. "Sannleikurinn er sá að fyrir þróunarland sem er að vinna sig út úr stríði þá er stærsta vandamálið okkar fátækt. Atvinnuleysi ungs fólks er líka ennþá vandamál. Athvörfin munu því halda áfram og við sjáum þau sem stóran þátt í því að veita ungu fólki framtíð. Auk þess að hjálpa unga fólkinu er þetta líka leið til að viðhalda friði. Ef unga fólkið fengi ekki hjálp væri vel mögulegt að félagslegu vandamálin ykjust og það myndi á endanum leiða til meira ofbeldis á ný."

Langt frá því að vera þróað land
Tommy segir landið nú orðið nokkuð stöðugt og friðsælt. "Við höfum haldið tvennar almennar kosningar, 2002 og 2007, og verið er að undirbúa kosningar á þessu ári. Á hverju tímabili milli kosninga hefur mikið breyst. Landið var í rúst. Herinn var í upplausn, lögreglan var óvirk og sömuleiðis réttarkerfið, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Mikið hefur gerst í þessum málum. Byggður hefur verið upp nýr her og lögregla. Vegir hafa verið lagðir, spítalarnir hafa verið opnaðir og skólar líka en það er enn langur vegur fram undan. Vegna þessarar miklu eyðileggingar erum við ennþá langt frá því að verða þróað land. Þróunin er langt ferli sem er enn í gangi."

Mikilvægt að halda stuðningi áfram
Að mati Tommy gleymist oft að halda áfram stuðningi við ríki eftir að mesta neyðin er yfirstaðin. "Það er mikilvægt að haldið sé áfram að styðja við ríki sem eru að koma út úr stríðsátökum.

Þegar landið er í logum bókstaflega þá er það í fjölmiðlum, fólk er með hugann við það og veitir stuðning. Svo eftir því sem lengra líður þá gleymist það og athyglin beinist annað." Hann segir ekki síður mikilvægt að halda áfram eftir neyðina og takast á við grundvallarvandamálin í samfélaginu, þau vandamál sem leiddu til átakanna. "Þetta þarf til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Það er mjög mikilvægt."

Vill þakka Íslendingum manngæskuna
Tommy segist ánægður með að tilheyra Rauða krossinum, sem sé eins og ein stór fjölskylda. "Við erum öll tengd, ef eitthvað gerist í einu horni landsins er fólk í öðrum hornum tilbúið að hjálpa til. Þetta er máttur manngæskunnar."

Hann segist lengi hafa langað að koma til Íslands. "Út frá mannfjölda er Ísland mjög lítið land miðað við mitt land, og þó þykir Síerra Leóne lítið land. Í gegnum tíðina höfum við fengið stuðning frá ykkur, einstaklingum og ríkisstjórninni. Þetta er þýðingarmikill stuðningur. Sú staðreynd að við erum svona langt í burtu frá ykkur en samt er þessi tenging, það sýnir mátt manngæskunnar og það hreyfir við manni. Mig hefur alltaf langað til Íslands til að tjá þakklæti okkar og til að viðhalda þessari samstöðu. Ég vona að einhvern daginn verði mitt land í stakk búið til þess að það geti hjálpað öðrum í neyð."

-

Rauði kross Íslands sér um rekstur eins athvarfs
Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við athvörfin í Síerra Leóne frá árinu 2005. Ákveðið var árið 2010 að styðja alfarið við eitt athvarf í bænum Moyamba. Rauði kross Íslands hefur fjármagnað rekstur þess síðan árið 2011 og námu framlögin 23 milljónum króna það ár. Þar af var tíu milljóna króna styrkur frá stjórnvöldum.

150 börn sækja náms- og starfsþjálfunina á hverju ári og eru stúlkur í meirihluta eða um 100 talsins. 60 þeirra eru einstæðar mæður með 111 börn undir fimm ára aldri. Að auki hefur athvarfið sinnt um þúsund manns í þorpssamfélaginu og veitt þeim fræðslu um malaríu, hreinlæti, umhirðu ungbarna og alnæmi.

-

Blóðdemantar notaðir í fjármögnun
Stríðið í Síerra Leóne stóð yfir frá því í mars 1991 og fram í janúar 2002. Fimmtíu þúsund manns voru drepnir í stríðinu og tvær og hálf milljón manna þurfti að flýja heimili sín. Í landinu búa nú um 5,3 milljónir manna, en ríkið er meðal þeirra fátækustu í heiminum og situr í sæti 158 af 169 á lífskjaralista Sameinuðu Þjóðanna.

Í stríðinu var fyrst og fremst barist um svæði þar sem demanta var að finna. Blóðdemantar urðu því til þess að fólk var drepið og þurfti að flýja heimili sín, og svo voru þeir notaðir til að fjármagna vopnakaup og stríðsreksturinn. Demantar eru kallaðir blóðdemantar ef þeir hafa verið grafnir upp á svæðum þar sem stríð geisa, þar sem uppreisnarmenn gegn viðurkenndum stjórnvöldum ráða. Fólk er oft í nauðungarvinnu við vinnslu þessara demanta. Reynt hefur verið að koma í veg fyrir markað fyrir blóðdemanta en það hefu ekki borið tilætlaðan árangur. Í Síerra Leóne er talið að enn sé nokkuð um ólöglega demantavinnslu, þó að slíkt hafi minnkað mikið.


-Þetta viðtal birtist á bls. 12 í Fréttablaðinu, 23. mars 2012