„Við vitum að Íslendingar gera allt þetta mögulegt“

18. des. 2012

Marianne Nganda man ekki sjálf hvernig hún fékk örið sem hún hefur undir hægra auganu. En hún veit hvernig það gerðist. Borgarastyrjöldin í Síerra Leone var í fullum gangi þegar frændi hennar flúði með hana inn í frumskóginn undan árás skæruliða.

„Pabbi dó þegar ég var enn ófædd. Þegar ég var þriggja ára fór mamma inn í bæ til að útvega mat og þar var hún tekin og drepin,“ segir Marianne. „Frændi minn tók mig að sér. Hann bar mig á bakinu á flóttanum, en ég datt og skar mig.“

Marianne er stödd í menntaathvarfi Rauða krossins í Moyamba í Síerra Leone þar sem hún verið síðan í júní, 2012. Hún stendur við saumavélina og brosir sínu blíðasta.

„Frændi minni vildi mjög gjarnan að ég færi í skóla en hann hafði ekki efni á því. Ég hef því aldrei farið í skóla fyrr. Vinkona mín lét mig vita af athvarfi Rauða krossins eftir að hún útskrifaðist héðan,“ segir Marianne, sem er átján ára. Hún á þriggja ára dreng sem er með frændfólki í höfuðborginni Freetown.

Í Moyamba athvarfinu eru 150 krakkar á aldrinum 14 – 18 ára, 50 drengir og 100 stúlkur. Þær eru samtals með 111 börn. Þau yngstu fara í leikskóla við athvarfið en eldri börnin eru með ættingjum eða fólki í nálægum þorpum.

Krakkarnir í Moyamba eiga að baki erfiða æsku. Sum voru á götunni, önnur hjá fjarskyldum ættingjum og enn önnur unnu þrælavinnu í námum. Árið sem þau fá að vera í menntaathvarfi Rauða krossins er tækifæri þeirra til að komast út úr vítahring erfiðisvinnu og vonleysis.

„Það má alls ekki loka athvarfinu! Það skiptir ekki máli mín vegna eftir að ég útskrifast en það er svo mikilvægt fyrir alla hina sem þurfa líka að fá tækifæri í lífinu. Athvarfið á að vera hérna til eilífiðar!,“ segir Marianne.

„Hér hef ég lært mikið. Ég get stafað nafnið mitt og talað óhrædd við fólk. Mér líður vel, ég er hamingjusöm og ég finn fyrir gleði. Á hverjum degi biðjum við fyrir þeim sem gefa peninga til að þetta sé mögulegt. Það er mjög gleðilegt að hitta einhvern frá Rauða krossinum á Íslandi því við vitum að Íslendingar gera þetta allt mögulegt.“