27. feb. 2006 : Árni Valgeirsson fær viðurkenningu

Sumarliði og Árni við athöfn á vegum Rauða kross deildarinnar í Stykkishólmi.
Laugardaginn 11. febrúar minntu þeir aðilar sem sinna neyðarþjónustu hér á landi á samræmda neyðarnúmerið hér á landi, 112. Það er númerið sem á að hringja í þegar neyð ber að. En oft er það ekki nóg, því það getur þurft að grípa til aðgerða á meðan beðið er eftir björgunarfólki og þá er mikilvægt að kunna undirstöðuatriðin í skyndihjálp til að geta brugðist við.

Öll getum við lent í því að koma fyrst á slysstað, hvort sem um er að ræða inni á heimilum, vinnustað eða úti á götu. Rétt og skjót viðbrögð á slíkum neyðarstundum eru án efa eitt það mikilvægasta sem við lærum á lífsleiðinni. Þekking sem betra er að kunna og nota ekki en að standa frammi fyrir því að þurfa að nota hana og kunna þá ekki.

Rauði kross Íslands hefur undanfarin fimm ár staðið að tilnefningum á skyndihjálparmanni ársins á Íslandi til að minna á mikilvægi skyndihjálparinnar.

16. feb. 2006 : Allir geta bjargað mannslífi

Kristján er framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Tíu ár eru liðin frá því að neyðarnúmerið 112 var tekið upp hér á landi.

14. feb. 2006 : Fjöldi manns lærði réttu handtökin við endurlífgun

Fjöldi manns kom í Gamla apótekið og nýtti sér tækifærið sem gafst til að kanna hversu leikinn maður er í að beita hjartahnoði og blæstri við endurlífgun.
Fjöldi manns kom í Gamla apótekið og nýtti sér tækifærið sem gafst til að kanna hversu leikinn maður er í að beita hjartahnoði og blæstri við endurlífgun.

Skyndihjálparhópur, sem starfar á vegum Ísafjarðardeildar Rauða krossins í samstarfi við Gamla apótekið, stóð vaktina á 112 daginn á laugardag og kenndu fólki réttu handbrögðin við endurlífgun. Hópurinn samanstendur af fjórum ungum mönnum sem hafa fengið sérstaka þjálfun í að bregðast rétt við í aðstæðum þar sem mínútur skipta máli.

10. feb. 2006 : Bjargaði lífi tveggja barna með kunnáttu í skyndihjálp

Úlfar Hauksson formaður Rauða kross Íslands, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra með Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur skyndihjálparmanni ársins 2005. Með þeim eru börnin sem nutu björgunar Guðrúnar.
Rauði kross Íslands hefur valið Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur sem Skyndihjálparmann ársins fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra afhenti Guðrúnu Björk viðurkenninguna á Hótel Loftleiðum í dag við setningu ráðstefnunnar 112 í tíu ár ? hvað hefur breyst, hvað er framundan? sem haldin er á 112 daginn og afmæli neyðarlínunnar.

Guðrún Björk vann það einstaka þrekvirki að bjarga þriggja ára dreng og stúlku frá drukknun þegar þau lentu í sjónum á Snæfellsnesi í apríl í fyrra. Hún var þar við skeljatínslu ásamt systur sinni og frænku og börnum þeirra allra. Í einni svipan soguðust börnin tvö út þegar enginn sá til. 

9. feb. 2006 : Mikið um dýrðir á 10 ára afmæli 112 neyðarlínunnar

Anton Gylfi Pálsson var valinn skyndihjálparmaður ársins á 112 deginum 2005. Með honum til vinstri á myndinni er Ásgeir Sigurðsson sem naut kunnáttu Antons.

Mikið verður um dýrðir hjá viðbragðsaðilum um allt land í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því að samræmd neyðarlína 112 var tekin í notkun hérlendis, og leysti af hólmi fjöldann allan af neyðarnúmerum. Af því tilefni er efnt til ráðstefnu um neyðarnúmerið og þróun neyðarþjónustu föstudaginn 10. febrúar.

Rauði kross Íslands mun útnefna skyndihjálparmann ársins á ráðstefnunni, og mun Björn Bjarnason dómsmálaráðherra veita viðkomandi viðurkenninguna. Fjöldi fólks um allt land var tilnefndur og munu deildir Rauða krossins á Ísafirði, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum einnig veita viðurkenningar á skyndihjálparmanni ársins heima í héraði.

Í Reykjavík munu deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu kynna starfsemi sína ásamt samstarfsaðilum í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð þar sem gestir fá meðal annars að reyna skyndihjálparkunnáttu sína.