7. des. 2007 : Ný kennslubók í skyndihjálp

Bókin Skyndihjálp og endurlífgun > Þú getur hjálpað þegar á reynir er komin út. Bókin tekur mið af nýjum evrópskum leiðbeiningum í skyndihjálp og endurlífgun sem byggja á alþjóðlegum vísindarannsóknum og sérfræðiráðgjöf og eru viðurkenndar um allan heim.

Fjallað er um öll helstu atriði skyndihjálpar á einfaldan og skýran hátt í máli og myndum. Bókin, sem er einungis 53 blaðsíður, er gott uppflettirit og nýtist við kennslu á styttri sem lengri skyndihjálparnámskeiðum.
 
Einnig hefur verið gefinn út margmiðlunardiskur fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp. Á disknum eru kynningarmyndbönd Rauða kross Íslands og kennsluglærur sem ná yfir alla fjóra kafla bókarinnar, auk inngangs, samantektar og viðbótarefnis fyrir lengri skyndihjálparnámskeið.

22. nóv. 2007 : Skyndihjálparhópur rifjar upp og æfir

Skyndihjálparhópur deilda á Norðurlandi kom saman á dögunum í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Leiðbeinandi að þessu sinni var Jón Knutsen.
 
Í fyrstu sögðu þau Helga Jóhannsdóttir og Jón Þorsteinn Sigurðsson frá upplifun sinni af því að taka þátt í flugslysaæfingunni á Sauðárkróki síðast liðið vor og hvernig þjálfunin sem þau fengu skilaði sér.
 
Síðan var lagt fyrir mannskapinn upprifjunarpróf þar sem tekið var fyrir  það efni sem kennt hefur verið fram að þessu. Að því búnu var farið yfir prófið og sammælst um rétt svör.

6. nóv. 2007 : Upprifjun og verklegar æfingar

Skyndihjálparhópur deilda á Norðurlandi kom saman nú um helgina í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Leiðbeinandi að þessu sinni var Jón Knutsen.
 
Í fyrstu sögðu þau Helga Jóhannsdóttir og Jón Þorsteinn Sigurðsson frá upplifun sinni af því að taka þátt í flugslysaæfingunni á Sauðárkróki síðast liðið vor og hvernig sú þjálfun sem þau hafa fengið skilaði sér.

14. sep. 2007 : Sálrænn stuðningur í boði Rauða krossins

Dr. Barbara Juen, sérfræðingur Rauða krossins í Austurríki um áfallarhjálp, heldur fyrirlestur um aðstoð við börn og unglinga í kjölfar áfalla í dag kl. 13:00. Fyrirlesturinn er haldinn í Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Strandgötu 24, Hafnarfirði.

Alvarlegir atburðir eins og einelti, skilnaður foreldra, slys, hamfarir eða missir skapa sálrænt umrót hjá fólki almennt. Börn eru sérstaklega viðkvæm í slíkum aðstæðum og eiga til dæmis erfitt með að skilja þær afleiðingar sem svona atburðir geta haft í för með sér. Þá vill það gjarnan gleymast að upplifun fullorðinna og barna af þessum atburðum er ólík. Rétt viðbrögð þeirra sem standa barninu næst geta hjálpað því að ná aftur sínu fyrra jafnvægi og hindrað óæskilegar afleiðingar.

31. ágú. 2007 : Skyndihjálparnámskeið fyrir hælisleitendur

Hælisleitendur sem bíða hér málsmeðferðar var boðið að taka skyndihjálparnámskeið í vikunni en skyndihjálparkennsla hefur verið eitt meginverkefni Rauða kross Íslands frá upphafi.

21. ágú. 2007 : Fyrirlestur og námskeið um stuðning við börn og unglinga í kjölfar áfalla

Föstudaginn 14. september mun dr. Barbara Juen halda fyrirlestur um Aðstoð við börn og unglinga í kjölfar áfalla (Crisis intervention with children and adolescents). Fyrirlesturinn fer fram í Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins og stendur frá kl. 13 – 16. Fagfólki sem vinnur með börn og unglinga er boðið að taka þátt. Nánari upplýsingar og þátttökuskráning hér.

Dr. Barbara  mun einnig halda námskeið dagana 12. og 13. september undir heitinu Aðstoð í kjölfar áfalla (Crisis Intervention after critical/traumatic events). Námskeiðið er ætlað meðlimum áfallahjálparteymis Rauða krossins en einnig hefur áfallateymi Landsspítala háskóla sjúkrahúss auk annarra teyma um landið verið boðið að senda þátttakendur.

16. ágú. 2007 : Hendum fordómunum á Menningarnótt

Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands tekur þátt í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar á Menningarnótt með tvennum hætti að þessu sinni. Tveir hópar Ungmennadeildar Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R) verða áberandi á götum borgarinnar á þessum hátíðardegi þó með ólíkum hætti sé.

Skyndihjálparhópurinn gegnir sem fyrr mikilvægu hlutverki í öryggisgæslu höfuðborgarinnar og starfar við hlið lögreglu og björgunarsveita við eftirlit og aðstoð. Félagar í skyndihjálparhópnum verða á ferðinni um borgina svo lengi sem þörf er á og veita þeim sem á þurfa að halda fyrstu hjálp. Hópurinn hefur mikla reynslu af aðstoð á viðburðum sem þessum og er það Reykjavíkurdeild Rauða krossins sönn ánægja að geta boðið fram þjónustu sína á stærstu samkomu Reykjavíkurborgar.

15. ágú. 2007 : Mikilvægt að hafa skyndihjálpartöskur við hendina

Eitt af mörgum verkefnum Rauða kross deilda er að standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum í skyndihjálp. Slys gera ekki boð á undan sér og því er þekking á skyndihjálp mikilvæg fyrir alla.

7. ágú. 2007 : 10. bekkingar læra skyndihjálp

Á fyrri helmingi ársins fengu 10. bekkingar fimm grunnskóla í Kópavogi, þ.e. Digranesskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Salaskóla og Snælandsskóla, kennslu í skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og hafa því öðlast víðtæka þekkingu á því hvernig bregðast skuli við í kjölfar slysa eða bráðaveikinda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

Námskeiðið er skólunum og nemendum að kostnaðarlausu og geta nemendurnir jafnframt fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum.

13. júl. 2007 : 10. bekkingar í Hafnarfirði læra skyndihjálp

Við lok skólaársins lærðu nemendur í 10. bekk Áslandsskóla, Lækjarskóla, Setbergsskóla, Hvaleyrarskóla og Víðistaðaskóla í Hafnarfirði skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og öðluðust því víðtæka þekkingu á hvernig bregðast á við komi þau t.d. á slysstað. 

Stefna grunnskólanna í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbæjar að bjóða öllum nemendum uppá þessi námskeið hefur verið skólunum og bæjarfélaginu til mikils sóma. Kunnátta í skyndihjálp getur komið að góðum notum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

19. jún. 2007 : Skyndihjálp og fjölmenning

Allir starfsmenn hjá Smellinn hf. hafa undanfarið sótt skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum á Akranesi, en fyrirtækið leggur mikið upp úr því að öryggismálum sé vel fyrir komið. Að bjóða starfsfólki sínu upp á námskeið í skyndihjálp er liður í því að fylgja eftir þessari frábæru stefnu í öryggismálum og fá þátttakendur greidd laun meðan á námskeiði stendur. Námskeiðin fóru fram að vinnutíma loknum í Rauða kross húsinu.

Um 80 manns starfa hjá Smellinn hf., þar af um 35 af erlendum uppruna. Akranesdeildin hefur skipulagt sjö námskeið. Eitt fyrir pólska starfsmenn, eitt fyrir starfsmenn frá Litháen, eitt námskeið á ensku fyrir starfsmenn frá Portúgal, Tékklandi og Frakklandi. Þá hafa verið haldin fjögur námskeið fyrir íslenska starfsmenn.

Þátttakendur hafa verið mjög ánægðir með framtakið, ekki síst erlendu starfsmennirnir sem telja það ótvíræðan kost að geta sótt námskeið í skyndihjálp á sínu eigin tungumáli. Leiðbeinendur á námskeiðunum sem fóru fram á pólsku og litháísku sóttu leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp hjá Rauða krossi Íslands í febrúar og er mikill fengur að því að fá þau í hóp skynihjálparleiðbeinenda félagsins.

15. jún. 2007 : Siglufjarðardeild með útskrift

Í fyrrakvöld útskrifaði Siglufjarðardeild Rauða krossins nemendur af námskeiðinu Börn og umhverfi.

6. jún. 2007 : Íslenskur skyndihjálparhópur í Mónakó

Fjögurra manna hópur sjálfboðaliða frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins er nú staddur í Mónakó til að sinna sjúkragæslu á Smáþjóðaleikunum, ásamt sjálfboðaliðum frá mónakóska Rauða krossinum. 

30. maí 2007 : 50 ungmenni á Akranesi sækja námskeiðið Börn og umhverfi

Undanfarnar vikur hafa um 50 ungmenni sótt námskeiðið Börn og umhverfi hjá Rauða krossinum á Akranesi. Haldin voru þrjú 16 stunda námskeið.

Námskeiðið er ætlað ungmennum á 12. aldursári og eldri og fjallar um ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn, t.d. árangursrík samskipti, aga, umönnun, hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Sérstök áhersla er lögð á skyndihjálp og slysavarnir. Einnig fengu þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins með sérstakri áherslu á verkefni Akranesdeildarinnar með ungu fólki. Öllum námskeiðum lauk með pizzuveislu.

Unga fólkið var á einu máli um að námskeiðið hefði verið lærdómsríkt og skemmtilegt.

21. maí 2007 : Blástur eða ekki blástur í endurlífgun

Skyndihálparráð Íslands skrifar um umfjöllun á niðurstöðu nýrrar japanskrar rannsóknar.

7. maí 2007 : Stjórn Rauða krossins rifjaði upp skyndihjálparkunnáttu

Á dögunum sótti stjórn Rauða krossins upprifjunarnámskeið í skyndihjálp en útbreiðsla skyndihjálparþekkingar hefur verið eitt af megin verkefnum Rauða kross Íslands frá upphafi. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þau Ólafur Ingi Grettisson, Snezana Sabo og Vaida Kariwauskaite.

- Það er mjög mikilvægt að allir sjálfboðaliðar Rauða krossins hafi grundvallarþekkingu í skyndihjálp. Margir sjálfboðaliðar, sérstaklega þeir sem sinna neyðarvörnum hafa sótt skyndihjálparnámskeið en við viljum leggja áherslu á að sjálfboðaliðar viðhaldi þekkingu sinni og sæki upprifjunarnámskeið á tveggja ára fresti. Okkur þótti eðlilegt að byrja á okkur sjálfum og ákváðum því að sækja námskeið saman, segir Ómar H. Kristmundsson formaður Rauða kross Íslands.

3. maí 2007 : Skyndihjálparhópur ungmenna á Egilsstöðum

Stofnaður var skyndihjálparhópur ungmenna í vegaHúsinu á Egilsstöðum 25. apríl á vegum Héraðs- og Borgarfjarðardeildar Rauða kross Íslands.

23. apr. 2007 : Æfð björgun úr vatni

Skyndihjálparhópur sem myndaður var í vetur meðal deilda á Norðurlandi kom saman á laugardaginn og æfði björgun úr vatni.

16. apr. 2007 : Námskeið í sálrænum stuðningi á Akranesi

Námskeið í sálrænum stuðningi var haldið á Akranesi síðastliðinn laugardag. Námskeiðið var sérstaklega ætlað fjöldahjálparstjórum á Vesturlandi sem vilja auka styrk sinn í starfi en allir áhugasamir voru velkomnir. Námskeiðið var fjögurra klukkustunda langt. 

3. apr. 2007 : Foreldrar ungra barna á Ísafirði læra skyndihjálp

Rauði krossinn hitti fyrir mæður með ung börn sín í Ísafjarðarkirkju og fræddi þær um almenna skyndihjálp og undirstöðuatriði endurlífgunar. Einnig var rætt um helstu hættur sem börnum stafa af í umhverfinu og hvernig ber að varast þær.

Um árabil hafa foreldrar komið saman í Ísafjarðarkirkju á miðvikudagsmorgnum og átt saman notalega samveru með börnum sínum. Foreldrarnir hafa svo fengið ýmsa aðila úr samfélaginu til að koma með fræðslu sem tengist börnum og barnauppeldi. Að þessu sinni fengu þau Bryndísi Friðgeirsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vestfjörðum til að vera með fræðslu um skyndihjálp.

29. mar. 2007 : Vel heppnuð skyndihjálparæfing á höfuðborgarsvæði

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæði stóðu á dögunum fyrir sameiginlegri skyndihjálparæfingu í Hafnarfirði. Alls tóku 16 manns þátt í æfingunni.

Skyndihjálp er eitt af meginverkefnum Rauða krossins og þess er vænst af sjálfboðaliðum hans að þeir standi klárir á því hvernig bjarga eigi fólki í neyð.

Þrír skyndihjálparleiðbeinendur aðstoðuðu þátttakendur við að leysa ýmis verkefni s.s. að hnoða og blása í endurlífgunardúkkur, binda um snúinn ökkla, leita að áverkum o.s.frv.

Skyndihjálparæfingum er ekki ætlað að koma í stað hefðbundinna námskeiða heldur að gefa fólki kost á að rifja upp þekkinguna og æfa sig í að beita helstu aðferðum skyndihjálpar. Það hefur nefnilega sýnt sig að ef maður æfir tæknina reglulega á maður auðveldara með að beita henni þegar á reynir.

Stefnt er á að halda aðra æfingu í vor og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Jón Brynjar Birgisson, svæðisfulltrúa, [email protected], sími 565 2425.

22. mar. 2007 : 28 nýir skyndihjálparleiðbeinendur

Rauði krossinn stóð fyrir leiðbeinendanámskeiði í skyndihjálp dagana 26. febrúar til 3. mars. Alls sóttu 28 manns námskeiðið og útskrifuðust frábærir leiðbeinendur sem vonandi eiga eftir að vera virkir í kennslu á næstu árum.

Í fyrsta sinn voru útskrifaðir fjórir leiðbeinendur úr röðum innflytjenda, en þeir voru sérstaklega boðnir velkomnir á námskeiðið. Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og þetta er eitt af því sem félagið vill gera til að koma til móts við þarfir þeirra.

Félagið er talsmaður umburðalyndis og hefur lagt áherslu á að byggja betra samfélag þar sem allir fá að njóta sín. Ein þeirra leiða sem hægt er að fara er að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið á ýmsum tungumálum.

1. mar. 2007 : Námskeið í sálrænum stuðningi fyrir norðan

Um síðustu helgi var haldið framhaldsnámskeið í sálrænum stuðningi á Akureyri fyrir þá fjöldahjálparstjóra sem vinna með deildum Rauða krossins á Norðurlandi. Þátttakendur voru 17 og komu frá átta deildum.

16. feb. 2007 : Rauði krossinn á framhaldsskólaböllum

Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sinnir mikilvægu hlutverki á böllum framhaldsskólanema.
Ingibjörg B. Sveinsdóttir blaðamaður fjallaði um starfið í Blaðinu þann 13. febrúar 2007.

11. feb. 2007 : Fræðsla um rétt viðbrögð varð móður til lífs

Rauði kross Íslands hefur valið Egil Vagn Sigurðsson sem Skyndihjálparmann ársins 2006 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Egill Vagn tók við viðurkenningunni í dag kl. 13:20 við athöfn í Smáralind sem viðbragðsaðilar í björgun og almannavörnum standa að í tilefni af 112-deginum.

Egill Vagn sem er einungis 8 ára bjargaði lífi móður sinnar í júní í fyrra þegar hún hneig niður á heimili þeirra og missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Egill Vagn brást skjótt við og sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar og sprautaði hana í handlegginn en hringdi síðan í neyðarlínuna 112 eftir hjálp. Hann fór svo eftir fyrirmælum neyðarvarðar þar til sjúkrabíll kom á staðinn.

7. feb. 2007 : Gerviblóð og góð erindi

Blæðingar og sár var aðalefni þriðja hluta fræðslu fyrir viðbragðshóp í skyndihjálp hjá deildum Rauða krossins á Norðurlandi. Námskeiðið fór fram um síðustu helgi.

Auk hefðbundinnar fræðslu um sár og umbúðir voru verklegar æfingar þar sem leikarar voru fengnir til aðstoðar. Voru þeir útbúnir með sex mismunandi áverka og var þátttakendum ætlað að meta áverkana og skýra hvernig þeir skildu meðhöndlaðir. 

Í
lok æfingar var síðan hvert tilfelli tekið fyrir og rétt meðhöndlun sýnd. Í tengslum við þennan þátt var einnig fjallað um það hvernig skuli bera sig að við að meta á skipulagðan hátt áverka á slösuðum.

18. jan. 2007 : Öflugur skyndihjálparhópur meðal deilda Rauða krossins á Norðurlandi

Deildir Rauða krossins á Norðurlandi hafa unnið að því á undanförnum mánuðum að koma á fót viðbragðshópi í skyndihjálp. Aukin þörf er fyrir vel þjálfað fólk í skyndihjálp á fjöldahjálparstöðvum.

8. jan. 2007 : Störf sjálfboðaliða í brennidepli á 112 daginn

112 dagurinn verður haldinn á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum um allt land sunnudaginn 11. febrúar næstkomandi. Að þessu sinni verður dagurinn helgaður margvíslegum störfum sjálfboðaliða að forvörnum, leit og björgun, almannavörnum og neyðaraðstoð. Megináhersla verður lögð á að kynna starf sjálfboðaliðasamtakanna og mikilvægi þess.

Markmiðið með 112 deginum er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum.