29. mar. 2007 : Vel heppnuð skyndihjálparæfing á höfuðborgarsvæði

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæði stóðu á dögunum fyrir sameiginlegri skyndihjálparæfingu í Hafnarfirði. Alls tóku 16 manns þátt í æfingunni.

Skyndihjálp er eitt af meginverkefnum Rauða krossins og þess er vænst af sjálfboðaliðum hans að þeir standi klárir á því hvernig bjarga eigi fólki í neyð.

Þrír skyndihjálparleiðbeinendur aðstoðuðu þátttakendur við að leysa ýmis verkefni s.s. að hnoða og blása í endurlífgunardúkkur, binda um snúinn ökkla, leita að áverkum o.s.frv.

Skyndihjálparæfingum er ekki ætlað að koma í stað hefðbundinna námskeiða heldur að gefa fólki kost á að rifja upp þekkinguna og æfa sig í að beita helstu aðferðum skyndihjálpar. Það hefur nefnilega sýnt sig að ef maður æfir tæknina reglulega á maður auðveldara með að beita henni þegar á reynir.

Stefnt er á að halda aðra æfingu í vor og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Jón Brynjar Birgisson, svæðisfulltrúa, [email protected], sími 565 2425.

22. mar. 2007 : 28 nýir skyndihjálparleiðbeinendur

Rauði krossinn stóð fyrir leiðbeinendanámskeiði í skyndihjálp dagana 26. febrúar til 3. mars. Alls sóttu 28 manns námskeiðið og útskrifuðust frábærir leiðbeinendur sem vonandi eiga eftir að vera virkir í kennslu á næstu árum.

Í fyrsta sinn voru útskrifaðir fjórir leiðbeinendur úr röðum innflytjenda, en þeir voru sérstaklega boðnir velkomnir á námskeiðið. Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og þetta er eitt af því sem félagið vill gera til að koma til móts við þarfir þeirra.

Félagið er talsmaður umburðalyndis og hefur lagt áherslu á að byggja betra samfélag þar sem allir fá að njóta sín. Ein þeirra leiða sem hægt er að fara er að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið á ýmsum tungumálum.

1. mar. 2007 : Námskeið í sálrænum stuðningi fyrir norðan

Um síðustu helgi var haldið framhaldsnámskeið í sálrænum stuðningi á Akureyri fyrir þá fjöldahjálparstjóra sem vinna með deildum Rauða krossins á Norðurlandi. Þátttakendur voru 17 og komu frá átta deildum.