14. sep. 2007 : Sálrænn stuðningur í boði Rauða krossins

Dr. Barbara Juen, sérfræðingur Rauða krossins í Austurríki um áfallarhjálp, heldur fyrirlestur um aðstoð við börn og unglinga í kjölfar áfalla í dag kl. 13:00. Fyrirlesturinn er haldinn í Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Strandgötu 24, Hafnarfirði.

Alvarlegir atburðir eins og einelti, skilnaður foreldra, slys, hamfarir eða missir skapa sálrænt umrót hjá fólki almennt. Börn eru sérstaklega viðkvæm í slíkum aðstæðum og eiga til dæmis erfitt með að skilja þær afleiðingar sem svona atburðir geta haft í för með sér. Þá vill það gjarnan gleymast að upplifun fullorðinna og barna af þessum atburðum er ólík. Rétt viðbrögð þeirra sem standa barninu næst geta hjálpað því að ná aftur sínu fyrra jafnvægi og hindrað óæskilegar afleiðingar.