7. des. 2007 : Ný kennslubók í skyndihjálp

Bókin Skyndihjálp og endurlífgun > Þú getur hjálpað þegar á reynir er komin út. Bókin tekur mið af nýjum evrópskum leiðbeiningum í skyndihjálp og endurlífgun sem byggja á alþjóðlegum vísindarannsóknum og sérfræðiráðgjöf og eru viðurkenndar um allan heim.

Fjallað er um öll helstu atriði skyndihjálpar á einfaldan og skýran hátt í máli og myndum. Bókin, sem er einungis 53 blaðsíður, er gott uppflettirit og nýtist við kennslu á styttri sem lengri skyndihjálparnámskeiðum.
 
Einnig hefur verið gefinn út margmiðlunardiskur fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp. Á disknum eru kynningarmyndbönd Rauða kross Íslands og kennsluglærur sem ná yfir alla fjóra kafla bókarinnar, auk inngangs, samantektar og viðbótarefnis fyrir lengri skyndihjálparnámskeið.