28. des. 2008 : Tilnefning á Skyndihjálparmanni ársins 2008

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2008?  Ef svo er - sendu okkur upplýsingar.

Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem hefur á árinu veitt almenna skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er ekki síst að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og áfalla.  

Ábendingar um eftirtektarverðan atburð þar sem hinn almenni borgari hefur brugðist við slysi eða veikindum til bjargar mannslífi er hægt að gera á vefnum með því að smella hér eða senda með pósti á Rauða kross Íslands Efstaleiti 9, 103 Reykjavík, merktar „Skyndihjálparmaður ársins“.

18. ágú. 2008 : Er skyndihjálparveggspjald á þínum vinnustað?

Nýtt og endurbætt veggspjald Rauða krossins um skyndihjálp er komið út. Það sýnir á einfaldan hátt hvernig hægt er að bregðast við algengum slysum. Veggspjaldið ætti að hanga á vegg á hverjum vinnustað.

Veggspjaldið er af stærðinni A2 og kostar kr. 1.000 (1.245 m. VSK) auk póstsendingarkostnaðar. Það er einnig fáanlegt á pólsku og ensku.

Þú getur pantað veggspjaldið með því að senda póst á [email protected] eða hringja í Rauða krossinn í síma 5704000. Vinsamlegast taktu fram hversu mörg eintök þú vilt panta.

10. júl. 2008 : Rauði kross Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg gefa út endurbætt veggspjald um viðbrögð við drukknun

Rauði kross Íslands og Slysavarnafélagð Landsbjörg hafa í gegnum tíðina unnið að bættu öryggi almennings, meðal annars á sundstöðum.

25. jún. 2008 : Feimnin varð okkur að falli

Þrátt fyrir botnsætið í Face08 evrópskri keppni í skyndihjálp var það gleðin sem stóð uppúr ferðinni hjá skyndihjálparhópi Norðlendinga sem kom snemma á  mánudagsmorguninn til Akureyrar að keppnisferðinni til Liverpool lokinni, eftir 19 tíma ferðalag.
 
„Að sjálfsögðu voru menn ekki sáttir við að enda í neðsta sæti því allir hafa jú keppnisskap og löngun til að vera á toppnum,'' segir Guðný Björnsdóttir fararstjóri landsliðsins. „Eftir að hafa skoðað stigagjöf dómaranna þar sem við sáum hvar íslenska liðið var helst að tapa stigum varð liðið sáttara við hlutskipti sitt því stigin voru ekki að tapast í umönnun sjúklinganna heldur meira á tæknilegum atriðum.'' Fyrst og fremst tapaði liðið stigum á því hversu illa það þekkti umgjörð keppninnar en eins og þjálfari liðsins sagði: „Feimnin varð ykkur að falli,'' segir Guðný.

24. jún. 2008 : Skyndihjálpahópur á Formúlu 1

Fjórum sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps var boðið að taka þátt í sjúkragæslu á Formúlu 1 keppninni á dögunum. Hópurinn var í boði Rauða krossins í Mónakó, en þetta er annað árið í röð sem hópurinn fer þangað til starfa.

Verkefni hópsins voru fjölmörg enda í mörg horn að líta í svona keppni. Eitt af verkefnum hópsins á keppnisdaginn sjálfan var að gæta Alberts prins II við ráslínu keppninnar.

Að keppninni lokinn var sjálfboðaliðunum boðið til Ítalíu að skoða Rauða krossinn í San Remo. Þar var vel tekið á móti þeim að hætti Ítala með mat og drykk.
 

16. jún. 2008 : Landsliðið í skyndihjálp í Evrópukeppni um endurlífgun

Rauði kross Íslands sendir landslið í skyndihjálp til að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni Rauða krossins um endurlífgun (First Aid  Convention in Europe, FACE), sem haldin verður dagana 19.-22. júní í Liverpool. Keppnin er sameiginlegur vettvangur fyrir sjálfboðaliða sem starfa við að veita skyndihjálp.

 Einn íslenskur dómari verður í keppninni, Gunnhildur Sveinsdóttir, sem er verkefnisstjóri í skyndihjálp hjá Rauða krossi Íslands.

„Þetta er metnaðarfull keppni og þátttakendur þurfa að vera reiðubúnir til að leggja á sig töluverðan undirbúning og æfingar,'' segir Hafsteinn Jakobsson liðstjóri.

22. maí 2008 : Landsliðið í skyndihjálp æfir sig

Í síðustu viku kom saman sá hluti skyndihjálparhópsins á Norðurlandi sem keppa mun fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni Rauða krossins í skyndihjálp (FACE),

13. maí 2008 : Öllum starfsmönnum sem sóttu skyndihjálparnámskeið gefin skyndihjálpartaska

Rauða kross deild Hveragerðis sá fyrir skömmu um námskeið í skyndihjálp fyrir starfsfólk á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði. Greinin birtist í Dagskránni á Suðurlandi.

28. apr. 2008 : Skyndihjálparhópur á Norðurlandi æfa rétt viðbrögð

Skyndihjálparhópur deilda á Norðurlandi kom saman á Narfastöðum um síðustu helgi til æfinga og ekki síður til að hrista hópinn saman.

22. apr. 2008 : Í mörg horn að líta hjá leiðbeinendum í skyndihjálp

Leiðbeinendur í Skyndihjálp og björgun sóttu endurmenntunarnámskeið Rauða krossins í síðustu viku. Fjallað var meðal annars um neyðaráætlanir á sundstöðum og öryggi sundgesta. Námskeiðinu lauk með verklegum æfingum í Sundhöll Reykjavíkur og er óhætt að fullyrða að Sundhöllin var líklega öruggasta laug landsins það kvöldið. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Ólafur Ingi Grettisson og Finnbjörn Finnbjörnsson.

Annað endurmenntunarnámskeið tók við næsta dag fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp. Að þessu sinni var megin áherslan lögð á umfjöllun um slysaforvarnir, tíðni, tegund og alvarleika slysa af ýmsu tagi.

21. apr. 2008 : Námskeiðin Börn og umhverfi standa yfir

Deildir Rauða krossins standa fyrir námskeiðinu Börn og umhverfi fyrir börn á aldrinum 12-15 ára. Á námskeiðinu, sem er 16 kennslustundir, er farið í ýmislegt er varðar umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, leiðtogahæfni, agastjórnun, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng.

Fjallað er um algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Frekari upplýsingar um námskeiðin eru hér á vefsíðunni undir liðnum á döfinni.

18. apr. 2008 : Rússneskt skyndihjálparnámskeið

Rússnenskumælandi hælisleitendum sem bíða málsmeðferðar hér á landi var boðið á skyndihjálparnámskeið á dögunum og er það í fyrsta sinn sem Rauði krossinn kennir skyndihjálparnámskeið á rússnesku. Kennslan fór fram á íslensku en Svetlana Kabalina túlkaði og var búið að þýða allt námsefnið yfir á rússnensku. Leiðbeinandi var Kristján Carlsson Granz.

 

Farið var í grunnatriði skyndihjálpar sem nauðsynlegt er að allir kunni til að geta veitt slösuðum eða sjúkum hjálp þar til aðstoð fagfólks berst. Til að mynda var farið í hvernig tryggja á öryggi á slysstað, hvernig meta á ástand slasaðra eða veikra, hvernig losa má aðskotahlut úr öndunarvegi, hvernig meðhöndla á áverka eins og blæðingar, höfuðhögg, mænuskaða, brunasár, beinbrot og liðáverka og alvarleg veikindi eins og brjóstverk, bráðaofnæmi, flogaveiki, sykursýki, öndunarerfiðleika og heilablóðfall. Verklegar æfingar voru auk þess framkvæmdar í endurlífgun og notkun hjartarafstuðtækja.

4. apr. 2008 : Foreldrar og dagmæður á skyndihjálparnámskeiði

Borgarfjarðardeild Rauða krossins hélt skyndihjálparnámskeið sem snýr að ungum börnum þann 26. mars. Foreldrar ungbarna og dagmæður Borgarbyggðar sátu námskeiðið alls 15 manns.

 

6. mar. 2008 : Sálrænn stuðningur eftir slys skiptir máli

Fræðslufyrirlestur um skyndihjálp og sálrænan stuðning var haldinn á vegum Rauða krossins í samvinnu við foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði í gær.

3. mar. 2008 : Vinningshafar í opnunarleik leiðbeinendavefjar

Í tilefni af opnun vefsvæðis fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp var efnt til opnunarleiks þar sem rýna þurfti í vefinn og leita að hlut.

27. feb. 2008 : Flóttamannakonur læra um skyndihjálp og forvarnir

Kólumbísku flóttakonurnar sem komu til landsins síðasta haust tóku þátt í skyndihjálparnámskeiði í gær. Á námskeiðinu var lögð áhersla á þau atriði slysaforvarna og skyndihjálpar sem eiga erindi við foreldra og forráðamenn barna. Meðal annars var fjallað um lykilatriði skyndihjálpar, hvernig gera á að sárum, stöðva blæðingu og þekkja helstu einkenni alvarlegra veikinda hjá börnum auk endurlífgunar.

Eftir námskeiðið fóru konurnar í heimsókn í Forvarnarhús Sjóvá. Þar voru þær fræddar um slysaforvarnir í heimahúsum og umferðinni og voru leystar út með gjöfum.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Margrét Halldórsdóttir en henni til aðstoðar voru Paola og Luciano sem sáu um spænska þýðingu.

21. feb. 2008 : Vel heppnuð æfingarferð skyndihjálparhópa

Það var oft handagangur í öskjunni hjá skyndihjálparhópum Reykjavíkurdeildar og ungmenna á Austurlandi í sameiginlegri æfingarferð þeirra um síðustu helgi í Alviðru í Ölfusi.

19. feb. 2008 : Lokaður vefur fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp

Gert hefur verið nýtt og betrumbætt vefsvæði fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp. Viðmótið á vefnum er persónulegra en áður og geta leiðbeinendur uppfært persónulegar upplýsingar

 

13. feb. 2008 : Viðurkenning fyrir björgunarafrek veitt á 112 deginum á Blönduósi

Rauða kross deildin í Austur Húnavatnssýslu afhenti Rúnari Þór Njálssyni viðurkenningu fyrir einstakt björgunarafrek á 112 deginum sl. mánudag.

13. feb. 2008 : Deildir kynntu skyndihjálp á 112 daginn

Margar deildir Rauða krossins tóku þátt í 112-deginum, sem fram fór síðast liðinn mánudag, með einum eða öðrum hætti. Flestar af deildunum sem tóku þátt heimsóttu skólana á sínu heimasvæði og afhentu þeim skyndihjálparveggspjaldið Getur þú hjálpað þegar á reynir?sem Rauði krossinn, í samstarfi við N1, gaf öllum leik,- grunn,- framhalds- og háskólum í landinu. Sumar deildir kynntu skyndihjálp á fjölförnum stöðum og buðu gestum og gangandi að læra skyndihjálp eða endurlífgun. Nokkrar deildir veittu viðurkenningar til einstaklinga fyrir eftirtektarverða færni í skyndihjálp sem varð til þess að mannslífi var bjargað. Skyndihjálparmaður ársins 2007 var svo útnefndur við hátíðlega athöfn í Skógarhlíðinni í Reykjavík. Hér má sjá sýnishorn af því sem fór fram hjá deildum á 112-daginn:

Mikið var um dýrðir í andyri verslunarhúss Bónuss, Apóteks Vesturlands og Tölvulistans á 112-daginn þegar Rauði krossinn á Akranesi og sjúkraflutningamenn vöktu athygli þeirra sem leið áttu um húsið á neyðarnúmerinu og mikilvægi skyndihjálpar. Uppákoman hófst með stuttri athöfn þegar Skarphéðinn Magnússon, stjórnarmaður Akranesdeildarinnar, veitti Eiríki Kristóferssyni viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2007 en hann brást rétt og vel við í alvarlegu vinnuslysi í Norðuráli fyrir réttu ári síðan. Einnig tóku fulltrúar allra leikskóla og grunnskóla á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit og Fjölbrautaskóla Vesturlands á móti skyndihjálparveggspjaldinu. Að athöfn lokinni var boðið upp á blóðþrýstings- og blóðsykurmælingu, vegfarendum bauðst að spreyta sig við endurlífgun, börn fengu að skoða sjúkrabílana og skyndihjálpartöskur voru til sölu.

11. feb. 2008 : Bjargaði eiginkonu í hjartastoppi

Rauði kross Íslands hefur valið feðgana Sveinbjörn Grétarsson og Tómas Sveinbjörnsson sem Skyndihjálparmenn ársins 2007 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu.

11. feb. 2008 : Viðbragðsaðilar minna á neyðarnúmerið á 112-daginn

112-dagurinn er í dag, 11. febrúar, en tilgangur hans er að minna á neyðarnúmerið og það víðtæka net björgunaraðila sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Auk þess er unnt að hafa samband við barnaverndaryfirvöld um allt land í gegnum neyðarnúmerið, 112. Neyðarlínunni bárust um 266 þúsund neyðarsímtöl á síðasta ári og var í langflestum tilvikum beðið um aðstoð lögreglu og slökkviliða.

Efnt verður til móttöku í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð síðdegis í dag þar sem verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2007 verða afhent og skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flytur ávarp og Lögreglukórinn tekur nokkur lög fyrir gesti.

9. feb. 2008 : Skyndihjálp á 112-daginn

Í tilefni af 112-deginum sem haldinn verður mánudaginn 11. febrúar næstkomandi, á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum um allt land, mun Rauði krossinn vekja sérstaka athygli á mikilvægi skyndihjálpar.

8. feb. 2008 : Allir skólar í landinu fá nýtt skyndihjálparveggspjald

Rauði krossinn, í samstarfi við N1, gefur öllum leik-, grunn-, framhalds- og háskólum landsins skyndihjálparveggspjaldið Getur þú hjálpað, þegar á reynir?

22. jan. 2008 : 12 prósent Víkurbúa sóttu skyndihjálparnámskeið

Helgin hjá íbúum Víkur fór í að bæta skyndihjálparkunnáttuna. Rauða kross deildin í Vík stóð fyrir þremur námskeiðum. Starfsfólk sundlauganna í Vík og á Kirkjubæjarklaustri sótti 24 klukkustunda námskeið í Skyndihjálp og björgun. Síðan var haldið 16 kennslustunda námskeiði í almennri skyndihjálp fyrir aðra íbúa Víkur og að lokum var námskeið fyrir starfsfólk Vegagerðarinnar.

Þátttakendur voru 37 sem telst vera 12 % Víkurbúa. Yngsti þátttakandinn var 14 ára. Kennt var eftir nýrri bók Skyndihjálp og endurlífgun, þú getur hjálpað þegar á reynir.

7. jan. 2008 : Skyndihjálparmaður ársins 2007 - tilnefningar óskast

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum bjargað mannslífi árið 2007?  Ef svo er - sendu okkur upplýsingar.