25. jún. 2008 : Feimnin varð okkur að falli

Þrátt fyrir botnsætið í Face08 evrópskri keppni í skyndihjálp var það gleðin sem stóð uppúr ferðinni hjá skyndihjálparhópi Norðlendinga sem kom snemma á  mánudagsmorguninn til Akureyrar að keppnisferðinni til Liverpool lokinni, eftir 19 tíma ferðalag.
 
„Að sjálfsögðu voru menn ekki sáttir við að enda í neðsta sæti því allir hafa jú keppnisskap og löngun til að vera á toppnum,'' segir Guðný Björnsdóttir fararstjóri landsliðsins. „Eftir að hafa skoðað stigagjöf dómaranna þar sem við sáum hvar íslenska liðið var helst að tapa stigum varð liðið sáttara við hlutskipti sitt því stigin voru ekki að tapast í umönnun sjúklinganna heldur meira á tæknilegum atriðum.'' Fyrst og fremst tapaði liðið stigum á því hversu illa það þekkti umgjörð keppninnar en eins og þjálfari liðsins sagði: „Feimnin varð ykkur að falli,'' segir Guðný.

24. jún. 2008 : Skyndihjálpahópur á Formúlu 1

Fjórum sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps var boðið að taka þátt í sjúkragæslu á Formúlu 1 keppninni á dögunum. Hópurinn var í boði Rauða krossins í Mónakó, en þetta er annað árið í röð sem hópurinn fer þangað til starfa.

Verkefni hópsins voru fjölmörg enda í mörg horn að líta í svona keppni. Eitt af verkefnum hópsins á keppnisdaginn sjálfan var að gæta Alberts prins II við ráslínu keppninnar.

Að keppninni lokinn var sjálfboðaliðunum boðið til Ítalíu að skoða Rauða krossinn í San Remo. Þar var vel tekið á móti þeim að hætti Ítala með mat og drykk.
 

16. jún. 2008 : Landsliðið í skyndihjálp í Evrópukeppni um endurlífgun

Rauði kross Íslands sendir landslið í skyndihjálp til að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni Rauða krossins um endurlífgun (First Aid  Convention in Europe, FACE), sem haldin verður dagana 19.-22. júní í Liverpool. Keppnin er sameiginlegur vettvangur fyrir sjálfboðaliða sem starfa við að veita skyndihjálp.

 Einn íslenskur dómari verður í keppninni, Gunnhildur Sveinsdóttir, sem er verkefnisstjóri í skyndihjálp hjá Rauða krossi Íslands.

„Þetta er metnaðarfull keppni og þátttakendur þurfa að vera reiðubúnir til að leggja á sig töluverðan undirbúning og æfingar,'' segir Hafsteinn Jakobsson liðstjóri.