25. feb. 2009 : Æfingahelgi skyndihjálparhóps í Alviðru

Skyndihjálparhópur ungmennadeildar Reykjavíkurdeildarinnar hélt árlega æfinga- og skemmtihelgi sína í Alviðru í Ölfusi um síðustu helgi. Auk Reykvíkinganna tóku nokkrir félagar í skyndihjálparhópi ungmenna á Austurlandi þátt.

Æfð voru ýmis atriði skyndihjálpar og hápunkturinn var svo hin ómissandi hópslysaæfing í hlöðunni.

Komin er um fimmtán ára hefð á þessar ferðir og skapast alltaf mikil stemning í kringum þær. Að lokinni vel heppnaðri dagskrá tók við grillveisla og kvöldskemmtun. Myndir: Oddný Björk Björnsdóttir.

24. feb. 2009 : Luku námi í vettvangshjálp

Ellefu sjálfboðaliðar skyndihjálparhópsins á Norðurlandi luku námi í vettvangshjálp um síðustu helgi. Námskeiðið tók tvær langar helgar nú í febrúar og var það haldið á Narfastöðum í Reykjadal af hálfu Sjúkraflutningaskólans. Einnig var kvöldstund varið við æfingar á björgun fólks frá drukknun í sundlauginni á Laugum.
 
Markmiðið með þessu námi er að þátttakendur séu færir um að veita fyrstu bráðaþjónustu á vettvangi áður en sjúkraflutningamenn koma á svæðið.
 
Námskeiðið samanstóð af bæði bóklegri og verklegri kennslu. Fjallað var um öryggi og sóttvarnir, líffæra- og lífeðlisfræði, lífsmörk, öndunarhjálp, endurlífgun, skoðun og mat, meðhöndlun áverka, sundlaugabjörgun, björgun úr bílflökum og hópslys, svo eitthvað sé nefnt. Þátttakendur voru látnir glíma við ýmis erfið tilfelli sem þau leystu með stakri prýði, en námskeiðinu lauk svo með  skriflegu og verklegu prófi.

19. feb. 2009 : Flóttakonurnar læra um skyndihjálp og forvarnir

Palestínsku flóttakonurnar frá Írak sem komu til landsins síðasta haust og settust að á Akranesi tóku þátt í skyndihjálparnámskeiði Rauða krossins í gær. 

18. feb. 2009 : Almenningur tekur skyndihjálparpróf

Heimsóknir á vefsíðu Rauða krossins hafa slegið öll met síðustu daga en um þrefalt fleiri en venjulega hafa að jafnaði litið inn á hverjum degi. Umferðina má rekja til skyndihjálparprófs þar sem fólk getur kannað þekkingu sína og metið hvort ekki sé ástæða til að hressa upp á kunnáttu sína og fara á skyndihjálparnámskeið.

Skyndihjálparprófið var sett upp í  kjölfar 112-dagsins og útnefningu á skyndihjálparmanni ársins. Rauði krossinn hvatti almenning til að kanna þekkingu sína í skyndihjálp með því að taka krossaprófið á vefsíðu félagsins og vinsælum vefmiðlum. Þá hvatti Rauði krossinn fólk til að sækja skyndihjálparnámskeið.

Auglýsingar á gólfi í verslunarmiðstöðvunum Kringlunni og Smáralind sem þjónuðu sama tilgangi vöktu mikla athygli en þar voru á ferðinni myndir í fullri stærð af slösuðu fólki. Því samhliða kynntu leiðbeinendur í skyndihjálp endurlífgun og hvöttu vegfarendur til að prófa að hjartahnoða og blása í dúkkur.

17. feb. 2009 : Sjónvarpsþáttaröð um sálrænan stuðning

Rauði krossinn hefur framleitt þrjá stutta fræðsluþætti um sálrænan stuðning í kjölfar efnahagskreppunnar undir yfirheitinu Þegar á reynir. Fyrsti þátturinn var sýndur í Ríkissjónvarpinu á fimmtudaginn en seinni tveir verða á dagskrá næstkomandi tvo fimmtudaga um klukkan 21:00.
 
Jóhann Thoroddsen, sálfræðingur Rauða krossins og verkefnisstjóri í sálrænum stuðningi, hefur umsjón með þáttunum. Jóhann leitast við að skýra út hvaða áhrif kreppan hefur á líðan fólks. Er þessi fræðsluþáttaröð hluti af viðbrögðum Rauða krossins í kjölfar efnahagsþrenginganna. Þættirnir eru vistaðir á myndbandasíðu Rauða kross Íslands á YouTube.  

12. feb. 2009 : Sálrænn stuðningur Rauða krossins í Sjónvarpinu

Rauði krossinn hefur framleitt þrjá stutta fræðsluþætti um sálrænan stuðning í kjölfar efnahagskreppunnar undir yfirheitinu Þegar á reynir. Þættirnir verða á dagskrá í Sjónvarpinu næstu þrjú fimmtudagskvöld. Fyrsti þátturinn er sýndur í kvöld kl. 21.05.

Jóhann Thoroddssen, sálfræðingur Rauða krossins og verkefnisstjóri í sálrænum stuðningi, hefur umsjón með þáttunum. Jóhann leitast við að skýra út hvaða áhrif kreppan hefur á líðan fólks, hver séu eðlileg viðbrögð og tilfinningar við því áfalli sem fylgir efnahagshruni og breyttum hag einstaklinga og fjölskyldna, og hvernig best sé að hlúa að börnunum svo áhyggjur og streita hafi sem minnst áhrif á þau.

11. feb. 2009 : Ég bara gerði þetta

Þegar Finnur Leó Hauksson var átta ára sýndi hann mikið snarræði er hann bjargaði þriggja ára systur sinni. Nú er hann tíu ára og er atburðurinn honum enn í fersku minni. Greinin birtist í sérblaði Fréttablaðsins um 112 daginn 11. febrúar.

11. feb. 2009 : Bjargaði viðskiptavini sem kramdist milli bifreiða

Rauði kross Íslands hefur valið Magnús Þór Óskarsson bifvélavirkja í bifreiðarskoðuninni Frumherja sem Skyndihjálparmann ársins 2008 fyrir hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnúsi Þór var veitt viðurkenning Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112- daginn.

Magnús vann það þrekvirki að bjarga Hannesi Ragnarssyni sem kramdist milli tveggja bifreiða á bílastæði við Frumherja í ágúst á síðasta ári. 

Hannes hafði skilið bifreið sína eftir í gangi. Hann ætlaði að teygja sig inn í bílinn til að drepa á honum en virðist þá hafa rekið sig í sjálfskiptinguna og sett bílinn í bakkgír. Hannes var þá hálfur inni í bílnum. Bíllinn bakkaði á fullri ferð og lenti Hannes milli eigin bifreiðar og bílsins fyrir aftan. Við áreksturinn fór hurðin af með miklum látum og Hannes skellur þá út úr bílnum og lendir á milli bifreiðanna.

11. feb. 2009 : Skyndihjálp kynnt í grunnskólum landsins á 112 daginn

Sjálfboðaliðar í um þrjátíu deildum Rauða krossins víða um land heimsækja grunnskóla í dag í tilefni af 112-deginum sem haldinn er árlega þann 11. febrúar. Viðbragðsaðilar um allt land heimsækja grunnskóla og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins kynna skyndihjálp fyrir nemendum og halda á lofti því víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem börn og ungmenni hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á.

Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka og þekkingu í slysavörunum, eldvörnum og skyndihjálp. Kennarar geta nálgast stutt skyndihjálparverkefni til að leggja fyrir nemendur.

10. feb. 2009 : 112-dagurinn 2009 – öryggi barna og ungmenna

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilarnir áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka. Viðbragðsaðilar heimsækja grunnskóla um allt land og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.

Að venju verður skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur á 112-daginn og veitt verða vegleg verðlaun í Eldvarnagetrauninni.

6. feb. 2009 : Góð þátttaka á námskeiðum á Vesturlandi

Rauða kross deildir á Vesturlandi hafa staðið fyrir fimm námskeiðum í sálrænum stuðningi á síðustu tveimur mánuðum.  Á þessi fimm námskeið mættu samtals 104 manns. Athygli vekur að af þessum fjölda eru milli 80 og 90 manns frá opinberum stofnunum og leik- og grunnskólum á Vesturlandi.

Námskeiðin eru 4 klst. að lengd og er markmið þeirra að þátttakendur kynnist gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

Svæðisráð og forráðamenn deilda hafa við skipulagningu námskeiðanna leitað eftir  samstarfi við opinbera aðila og skólastjórnendur á þeim stöðum þar sem þegar hafa verið haldin slík námskeið, og hefur þeim umleitunum undantekningarlaust verið vel tekið eins og tölur um mætingu sýna og eru víða dæmi um að námskeiðin hafi verið og verði felld inn í starfsdaga kennara.

3. feb. 2009 : Hjartarafstuðtæki gefin til skyndihjálparkennslu

Fyrirtækin Donna, A Karlsson og Fastus hafa gefið Rauða krossinum hjartarafstuðtæki sem ætluð eru til kennslu á skyndihjálparnámskeiðum. Tækin eru af tegundunum PAD, frá Donnu, Lifepak, frá A. Karlssyni, og Power Heart, frá Fastusi.

Í nýjustu kennslubók Rauða krossins í skyndihjálp „Skyndihjálp og endurlífgun - þú getur hjálpað þegar á reynir" er fjallað um notkun hjartarafstuðtækja. Tilgangurinn með því er að gera leiðbeinendum kleift að kenna almenningi á slík tæki á hefðbundnum skyndihjálparnámskeiðum.

2. feb. 2009 : Allir geta bjargað mannslífi

Slys, áverkar og veikindi gera sjaldnast boð á undan sér. Það getur því oltið á þeim sem eru nærstaddir, til dæmis ættingjum eða samstarfsmönnum, að veita viðeigandi aðstoð.