26. okt. 2009 : Hagnýtar leiðbeiningar um viðbrögð við slysum og veikindum

Á vefsíðu Rauða kross Íslands má nú finna stuttar og hagnýtar leiðbeiningar fyrir almenning um hvernig bregðast megi við ýmsum slysum og veikindum. Leiðbeiningar henta vel þegar rifja skal upp aðferðir skyndihjálpar, t.d. þegar komið er að umferðarslysi, einstaklingi sem hefur hlotið áverka á höfði, beinbrot, hjartaáfall og svo má lengi telja. Leiðbeiningarnar verða einnig birtar á vefsíðunni doktor.is.

 

20. okt. 2009 : 21 skyndihjálparleiðbeinendur úrskrifast

Rauði krossinn stóð fyrir vikulöngu leiðbeinendanámskeiði í skyndihjálp á dögunum og útskrifaði 21 frábæra leiðbeinendur sem vonandi verða öflugir í að breiða út skyndihjálparþekkingu um allt land á næstu árum.

Rauði krossinn óskar nýjum leiðbeinendum til hamingju með réttindin og vonast eftir góðu samstarfi í framtíðinni.

7. okt. 2009 : Vönduð og hagnýt skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum

Vissir þú að oftast eru það vinir eða ættingjar sem koma fyrstir á vettvang þegar einhver slasast eða veikist alvarlega? Stutt skyndihjálparnámskeið getur gert þér kleift að bjarga mannslífi þegar mínútur skipta máli.

Rauði kross Íslands býður upp á hagnýt námskeið í skyndihjálp fyrir þá sem vilja öðlast færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum. Námskeiðin eru haldin um allt land og eru einnig í boði á erlendum tungumálum. Áhersla er lögð á verklegar æfingar þar sem þátttakendur setja sig í spor þess sem kemur fyrstur á vettvang slyss eða alvarlegra veikinda. Á námskeiðunum er meðal annars notast við kennslubrúður og er farið yfir hvernig nota á hjartastuðtæki.