2. sep. 2011 : Skyndihjálpartaskan komin í hús

Taskan með skyndihjálparvörum sem hefur verið uppseld um tíma er kominn aftur í sölu.  Skyndihjálpartaskan inniheldur allar nauðsynlegustu vörur sem nota má þegar komið er að slysi, og er því upplagt að hafa hana í bílnum, og við óhapp í heimahúsum. Henni fylgja leiðbeiningar um notkun og einfaldur slysavarnabæklingur.

Innihaldslýsing: Sótthreinsiklútar, sótthreinsuð grisja, sáraumbúðir, plástrar, skæri, brunagel, þrúgusykur, augnskol, flísatöng, öryggisnælur, heftiplástur, klemmuplástur, teygjubindi, grisjubindi, teygjunet, einnota hanskar, einnota kælipoki, ályfirbreiðsla, blásturshlíf, vasaljós, flauta og þríhyrna.

24. ágú. 2011 : Blása, hnoða og stöðva blæðingu

„Þúsundir sækja skyndihjálparnámskeið Rauða kross Íslands á hverju ári. Handtökin á ögurstundu séu fumlaus og örugg. Endurlífgun og opin sár. Rétt viðbrögð skipta öllu,“ segir Gunnhildur Sveinsdóttir verkefnisstjóri. Önnur námskeið eru einnig fjölsótt. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 19.08.2011.

11. júl. 2011 : Íslenskir sjálfboðaliðar á Formúlu 1

Þrír sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands, Addý Ásgerður Einarsdóttir, Inga Birna Pálsdóttir og Viðar Arason, brugðu sér út fyrir landsteinana í vor og tóku þátt í sjúkragæsluteymi mónakóska Rauða krossins á Monte Carlo kappakstrinum.

Að mörgu er að huga fyrir stórt verkefni sem þetta og dagarnir voru nýttir frá morgni til kvölds í fundi og annan undirbúning þangað til kom að stóru stundinni.

Þremenningarnir fjármögnuðu ferðina sjálfir en Viðar sagði að þau Inga Birna unnusta hans litu á ferðina sem brúðkaupsferð. Þau munu ganga í hnapphelduna síðar í sumar.

8. júl. 2011 : Skyndihjálparhópur að störfum

Nýstofnaður skyndihjálparhópur deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu hefur nóg fyrir stafni þessa dagana. Síðustu vikur hafa sjálfboðaliðar hópsins heimsótt fjölmörg sumarnámskeið Rauða krossins og verið með stuttar skyndihjálparkynningar. Þá er hópurinn duglegur við að halda fundi og þróa starfið. Flestir fundir hópsins eru með þjóðfundarsniði þar sem tryggt er að skoðanir allra komi fram.

Hópurinn hefur sett sér metnaðarfull markmið um að fjölga þátttakendum á skyndihjálparnámskeiðum Rauða krossins verulega og ætlar að nýta til þess ýmsar leiðir eins og heimsóknir til fyrirtækja og stofnana, skyndihjálparkynningar í verslunarmiðstöðvum, fjölbreytta útgáfu kynningarefnis og bæjarhátíðir.

3. jún. 2011 : Börn og umhverfi, sívinsælt námskeið fyrir börn

Nú stendur sem hæst kennsla á námskeiðunum Börn og umhverfi sem haldin eru af deildum Rauða krossins víðsvegar um landið. Hátt í 500 börn útskrifast árlega af þessum sívinsælu námskeiðum sem eru fyrir börn 12 ára og eldri sem gæta yngri barna.
 
Þátttakendur læra ýmislegt er varðar umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

15. feb. 2011 : Getur þú hjálpað þegar á reynir?

Í dag gætir þú orðið vitni að hjartastoppi og rétt og skjót viðbrögð gætu skilið á milli lífs og dauða. Á Íslandi verða um 200 hjartastopp á ári. Í Evrópu valda hjartasjúkdómar um 40% dauðsfalla hjá einstaklingum 75 ára og yngri og hjartastopp eru í 60% tilfella orsök dauðsfalla hjá fullorðnum með undirliggjandi hjartasjúkdóm.

Við skyndilegt hjartastopp þarf að hefja endurlífgun án tafar og ef innan við þrjár til fimm mínútur líða frá hjartastoppi þar til endurlífgun er hafin geta lífslíkur orðið á bilinu 50% til 75%. Lífslíkur dragast svo saman um 10-12% á hverri mínútu frá hjartastoppi þar til gefið er hjartarafstuð. Tíminn skiptir því gríðarlega miklu máli.

15. feb. 2011 : Getur þú hjálpað þegar á reynir?

Í dag gætir þú orðið vitni að hjartastoppi og rétt og skjót viðbrögð gætu skilið á milli lífs og dauða. Á Íslandi verða um 200 hjartastopp á ári. Í Evrópu valda hjartasjúkdómar um 40% dauðsfalla hjá einstaklingum 75 ára og yngri og hjartastopp eru í 60% tilfella orsök dauðsfalla hjá fullorðnum með undirliggjandi hjartasjúkdóm.

Við skyndilegt hjartastopp þarf að hefja endurlífgun án tafar og ef innan við þrjár til fimm mínútur líða frá hjartastoppi þar til endurlífgun er hafin geta lífslíkur orðið á bilinu 50% til 75%. Lífslíkur dragast svo saman um 10-12% á hverri mínútu frá hjartastoppi þar til gefið er hjartarafstuð. Tíminn skiptir því gríðarlega miklu máli.

11. feb. 2011 : Bjargaði syni sínum eftir bílveltu á Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði

Rauði kross Íslands hefur valið Ólaf Guðnason sem Skyndihjálparmann ársins 2010 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu þegar hann lenti í bílslysi fjarri byggð í fyrrasumar. Ólafur mun taka við viðurkenningu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag 11. febrúar kl. 14:00, á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.

Ólafur bjargaði lífi sonar síns, Ólafs Diðriks Ólafssonar, með því að stöðva miklar blæðingar á höfði og handlegg hans þegar bíll þeirra valt á Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði. Þegar slysið varð var Ólafur eldri sofandi í farþegasætinu en Ólafur Diðrik keyrði bílinn. Ólafur Diðrik sofnaði undir stýri og missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af og valt. Bíllinn gjöreyðilagðist, allar rúður brotnuðu og nota þurfti klippur til að ná Ólafi Diðriki út úr honum.

11. feb. 2011 : Vilt þú hjálpa náunganum?

Árlega stendur Rauði kross Íslands að vali á skyndihjálparmanni ársins þar sem ákveðnum einstaklingi er veitt viðurkenning fyrir að hafa bjargað mannslífi með því að bregðast hárrétt við á neyðarstundu.

14. jan. 2011 : Fjölbreytt námskeið á höfuðborgarsvæðinu

Samstarf deilda á höfuðborgarsvæðinu er alltaf að aukast og við skipulagningu dagskrár vorsins er leitast við að þjóna öllu svæðinu sem best. Nokkur námskeið eru haldin sameiginlega og þar má  nefna heimsóknavinanámskeið, grunnnámskeið Rauða krossins og kynningu á Genfarsamningunum.
Deildir svæðisins halda skyndihjálparnámskeið, 4 og 16 stunda, námskeið í sálrænum stuðningi og slysum og veikindi barna. Einnig er boðið upp á skyndihjálparnámskeið á ensku.

Sérsniðin námskeið fyrir sjálfboðaliða
Námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða ýmissa verkefna eru einnig haldin reglulega og á næstunni verða haldin námskeið fyrir sjálfboðaliða í hælisleitendaverkefnum, Hjálparsímanum 1717, félagsvinum fólks af erlendum uppruna, Rauðakrosshúsunum, skyndihjálparhópi og viðbragðshópi.

5. jan. 2011 : Skyndihjálparmaður ársins - tilnefningar óskast

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2010?  Ef svo er - sendu okkur ábendingu með því að smella á borðann ofar á síðunni.

Tilnefningar þurfa að berast Rauða krossi Íslands eigi síðar en þann 15. janúar 2011.

Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.