14. jan. 2011 : Fjölbreytt námskeið á höfuðborgarsvæðinu

Samstarf deilda á höfuðborgarsvæðinu er alltaf að aukast og við skipulagningu dagskrár vorsins er leitast við að þjóna öllu svæðinu sem best. Nokkur námskeið eru haldin sameiginlega og þar má  nefna heimsóknavinanámskeið, grunnnámskeið Rauða krossins og kynningu á Genfarsamningunum.
Deildir svæðisins halda skyndihjálparnámskeið, 4 og 16 stunda, námskeið í sálrænum stuðningi og slysum og veikindi barna. Einnig er boðið upp á skyndihjálparnámskeið á ensku.

Sérsniðin námskeið fyrir sjálfboðaliða
Námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða ýmissa verkefna eru einnig haldin reglulega og á næstunni verða haldin námskeið fyrir sjálfboðaliða í hælisleitendaverkefnum, Hjálparsímanum 1717, félagsvinum fólks af erlendum uppruna, Rauðakrosshúsunum, skyndihjálparhópi og viðbragðshópi.

5. jan. 2011 : Skyndihjálparmaður ársins - tilnefningar óskast

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2010?  Ef svo er - sendu okkur ábendingu með því að smella á borðann ofar á síðunni.

Tilnefningar þurfa að berast Rauða krossi Íslands eigi síðar en þann 15. janúar 2011.

Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.