Skyndihjálparmaður ársins 2009 – tilnefningar óskast!

12. jan. 2010

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2009? Ef svo er - sendu okkur upplýsingar.

Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem hefur á árinu veitt almenna skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er ekki síst að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og áfalla.

Ábendingar um eftirtektarverðan atburð þar sem hinn almenni borgari hefur brugðist við slysi eða veikindum til bjargar mannslífi skulu skráðar í gagnagrunn á vef Rauða krossins, www.raudikrossinn.is/skyndihjalp (og velja skyndihjálparmaður - tilnefning), eða sendar með pósti á Rauða kross Íslands Efstaleiti 9, 103 Reykjavík, merktar „Skyndihjálparmaður ársins“. Þá er best að ljósrita og fylla út meðfylgjandi eyðublað.

Tilnefningar þurfa að berast Rauða krossi Íslands eigi síðar en þann 15. janúar 2010.

Eftirfarandi reglur gilda um tilnefningar:
o Að „Skyndihjálparmaður ársins“ hafi bjargað mannslífi.
o Að „Skyndihjálparmaður ársins“ sé ekki menntaður heilbrigðisstarfsmaður, hjúkrunarfræðingur, læknir, sjúkraflutningamaður eða sjúkraliði eða hafi þegar björgunin átti sér stað verið starfandi á vegum björgunarsveitar eða lögreglu.
o Að „Skyndihjálparmaður ársins“ hafi sýnt kunnáttu og færni í almennri skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Hjálpin sem veitt var verður að hafa leitt til betri líðan eða stöðugleika á ástandi hins slasaða frá þeim tíma sem slysið/áfallið varð og þar til
fagfólk kom á vettvang.

Dómnefnd um val á „Skyndihjálparmanni ársins” skipa fulltrúar frá: Rauða krossi Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Þeir sem tilnefndir eru fá afhend viðurkenningarskjöl en skyndihjálparmaður ársins fær m.a. skyndihjálparbók, ávísun á skyndihjálparnámskeið allt að 16 klst. og sjúkratösku.