112 dagurinn er á morgun

10. feb. 2012

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum, Hafnarfirði  9.febrúar 2012

11.febrúar er 112 dagurinn , í tilefni af því langar mig til þess að minna á mikilvægi þess að kunna skyndihjálp.  Ég starfa sem hjúkrunarfræðingur í heilsugæslu og hef sem fagmaður  þurft að nota mína þekkingu í  leik og starfi og hef  lengi vitað að skyndihjálp getur bjargað manns lífi.

 Þegar við hjónin eignuðumst okkar yngsta barn fyrir 4 árum fannst mér nauðsynlegt að maðurinn minn færi  á skyndihjálpar námskeið  hjá Rauða krossinum til þess að vera betur undirbúin í foreldra hlutverkið eftir langt hlé. Mér datt aldrei í hug að tveimur árum seinna  mundi hann nota skyndihjálpar tækni , sem hann lærði á námskeiðinu, til að bjarga lífi barnsins okkar. Þá hafði sá litli sett upp í sig aðskotahlut sem losnaði af bolla. Hluturinn satt fastur í hálsinum á honum og hann var að blána upp ,þvílík martröð!  Með því að halda ró sinni og banka í bakið á þeim litla, snúa honum við og halda áfram, losnaði hluturninn og allt fór vel. Þarna skiptu mínútur máli og þótt að hringt hafi verið í 112 og sjúkrabíll lagt strax af stað til okkar hefði það tekið allt of langan tíma þegar barnið var hætt að anda. Hluturinn losnaði eftir nokkrar endurtekningar og drengurinn var farinn að anda eðlilega um leið og talaði við okkur eins og ekkert hefði í skorist.

Ég hvet alla unga sem aldna að skrá sig á skyndihjálpar námskeið hjá Rauða krossinum ef þið hafið ekki þessa þekkingu. Slys gera ekki boð á undan sér og mínútur geta skipt máli.