Góð tilfinning að bjarga lífi

Sigurð Boga Sævarsson blaðamann á Morgunblaðinu

12. feb. 2010

„AÐ hafa bjargað lífi föður míns er góð tilfinning,“ segir Magnea Tómasdóttir sem Rauði kross Íslands og fleiri útnefndu í gær skyndihjálparmann ársins 2009. Greinin birtist í Morgunblaðinu 12.02.2010.

Magnea var með tveimur ungum börnum og föður sínum, Tómasi Grétari Ólasyni, þegar hann fór í hjartastopp í sumarhúsi fjölskyldunnar á Hvalsnesi á Suðurnesjum í júlí sl. sumar. Tómas Grétar hafði lagt sig eftir kvöldmat og fljótlega áttaði Magnea sig á því að ekki var allt með felldu. Þegar að var gáð hafði hann misst meðvitund.

„Ég tók farsíma og hringdi í neyðarlínuna, tók alla púða undan höfði pabba og lét hann liggja á hörðum bekk. Byrjaði hjartahnoð og blástur með símann á öxlinni og fékk þaðan leiðbeiningar. Ég hélt hnoðinu áfram allt þar til aðstoð barst frá Keflavík eftir sextán mínútur.“

Sjúkraflutningamennirnir gáfu Tómasi Grétari tvisvar rafstuð og hjartað fór að slá aftur. „Ég satt að segja hugsaði ekki um neitt annað meðan á þessu stóð, ég hef aldrei lifað jafnmikið í núinu og þessar mínútur.“

Það kom í ljós næsta dag að hjartaáfallið hafði ekki haft alvarleg eftirköst. Við hjarta Tómasar var tengdur svokallaður „bjargráður“ sem grípur inn í fari eitthvað úrskeiðis.

„Það hve vel fór tel ég að megi þakka því að ég hef sjálf aflað mér þekkingar í skyndihjálp. Ég byrjaði ung í skátunum og að þekkja til skyndihjálpar var hluti af þjálfun minni,“ segir Magnea, sem í gærkvöldi var með fjölskyldu sinni sem þá fagnaði 75 ára afmælisdegi Tómasar Grétars Ólasonar.