Bjargaði lífi móður sinnar

15. feb. 2012

Theodór Fannar Eiríksson var meðal þeirra sem tilnefndir voru til skyndihjálparmanns ársins 2011. Theodór tók á móti viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi fyrr í vikunni. Viðurkenninguna hlaut hann fyrir að bjarga lífi móður sinnar þegar eldur kom upp í íbúð þeirra og læstist í móður hans. Viðbrögð Theodórs voru hárrétt en hann rúllaði móður sinni inn í teppi og slökkti þannig eldinn og kom henni út úr húsinu. Atvikið átti sér stað í desember sl.

Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem á árinu hefur veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning. Tilgangurinn með tilnefningunni er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda. 

Auk Theodórs hlutu fjórir aðrir einstaklingar viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru Íris Grönfeldt, kennari, og dóttir hennar Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, en Íris endurlífgaði móður sína með aðstoð Önnu Þórhildar eftir að hún lenti í blóðþrýstingsfalli og fór í hjartastopp á heimili sínu í Borgarnesi; Vilhjálmur Vernharðsson, björgunarsveitarmaður og bóndi á Möðrudal á Fjöllum, sem endurlífgaði tékkneska ferðakonu sem fór í hjartastopp á tjaldstæðinu við bæinn; og Þorgrímur Ómar Tavsen, stýrimaður, sem endurlífgaði skipsfélaga sinn eftir að hann fór í hjartastopp úti á sjó.

Gísli Örn Gíslason var valinn skyndihjálparmaður ársins 2011 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu þegar dóttir hans fór í hjartastopp á heimili þeirra þann 29. janúar 2011.

Fréttina um björgunarafrek Theodórs má lesa hér

Á myndinni eru móðir Theodórs, Margrét Sverrisdóttir, Linda Ósk Sigurðardóttir og Theodór Fannar Eiríksson.