Vilt þú hjálpa náunganum?

Önnu Stefánsdóttur formann Rauða kross Íslands

11. feb. 2011

Árlega stendur Rauði kross Íslands að vali á skyndihjálparmanni ársins þar sem ákveðnum einstaklingi er veitt viðurkenning fyrir að hafa bjargað mannslífi með því að bregðast hárrétt við á neyðarstundu. Svörunin við auglýsingu Rauða krossins um tilnefningu á skyndihjálparmanni ársins 2010 sýnir glöggt hversu margir lenda skyndilega í þeim aðstæðum að þurfa með snarræði að bjarga öðrum. Slíkt gerist jafnt innan heimilisins sem utan, við athafnir daglegs lífs, meðal fjölskyldunnar eða alls ótengdra aðila.

Atvikin eru jafn fjölbreytt og tilnefningarnar eru margar: faðir veitir syni sínum aðstoð eftir bílslys, starfsfélagar hnoða og blása lífi í félaga sinn, faðir losar aðskotahlut úr öndunarvegi barns síns, gestur á líkamsræktarstöð hnoðar og blæs lífi í ókunnugan mann sem hnígur niður við hlið hans svo einhver tilfelli séu nefnd.

Öll búum við yfir þeim dýrmæta hæfileika að geta bjargað lífi en suma vantar einungis herslumuninn til að ná tökum á tækninni sem til þarf.  Þekking í skyndihjálp getur bjargað.  Það er ekki nóg að kunna réttu handtökin, fólk þarf einnig að vera reiðubúið að veita aðstoð þegar á reynir.  Oft geta endurlífgunartilraunir áður en sjúkrabíll kemur á staðinn skilið milli lífs og dauða.

Kannanir systurfélaga Rauða krossins í Evrópu sýna að skyndihjálparþekking eykur til muna líkurnar á því að fólk veiti viðeigandi aðstoð.  Hinsvegar kemur í ljós að stór hluti fólks telur sig ef til vill ekki réttan aðila, eða er hreinlega ekki reiðubúinn til að veita viðeigandi hjálp, sérstaklega í tilfellum þar sem óviðkomandi einstaklingur á í hlut.  Þar geta margar ástæður legið að baki, en kannski þarf hver og einn að svara þeirri samviskuspurningu hvort hann sé reiðubúinn til að veita aðstoð þegar á reynir.

Alþjóða Rauði krossinn og Rauði kross Íslands sem hluti af honum hefur beitt sér fyrir því í áratugi að mennta almenning í skyndihjálp. Rauði krossinn er skuldbundinn samkvæmt samningi við stjórnvöld til að stuðla að þekkingu landsmanna í skyndihjálp svo við getum verið við öllu búin þegar til þarf að taka. Þetta hlutverk sitt tekur félagið  mjög alvarlega og leggur áherslu á að sinna því sem best.  Því hvetur Rauði krossinn alla til að læra skyndihjálp til að geta komið sjálfum sér og öðrum til bjargar. 

Við viljum einnig koma þeim boðskap á framfæri að allir geta bjargað lífi og að almenn þekking í skyndihjálp geri hvern og einn hæfari til þess. Tilnefningarnar sem Rauði kross Íslands fær við val á skyndihjálparmanni ársins sýna einnig að á hverju ári bjargar fjöldi fólks mannslífum við aðstæður sem oft fara hljótt.  Það er því stór hópur fólks sem er reiðubúinn að treysta á sjálfan sig og beita endurlífgun, oftast með dyggri aðstoð frá Neyðarlínunni 112.

Það er nauðsynlegt að kunna að nota neyðarnúmerið 112 þegar mikið liggur við. Það er okkar von að með því að vekja athygli á mikilvægi skyndihjálpar muni sífellt fleiri vakna til vitundar um nauðsyn þess  að læra skyndihjálp.  Rétt og skjót viðbrögð á neyðarstundu er án efa eitt það mikilvægasta sem við lærum á lífsleiðinni.