Bjargaði lífi vinar síns í ræktinni

Aðalstein Kjartansson blaðamann á DV

15. feb. 2011

Greinin birtist á dv.is 15.02.2011.

Það var venjulegur dagur í ræktinni hjá Sæþóri Þorbergssyni þegar hann, ásamt eiginkonu sinni Steinunni Helgadóttur einkaþjálfara, tók eftir því að maður sem var á hlaupabretti fór að haga sér undarlega.

„Við vorum nýbúin að hita upp og vorum að fara að byrja þegar við tókum eftir því að hann var farinn að bera sig undarlega. Svo allt í einu stekkur hann til hliðar við brettið og fer að kalla í okkur, með fremur undarlegum hætti. Þá stukkum við til til að athuga hvort það væri í lagi með hann en þá var hann alveg kominn í blackout. Þá var hann kominn í hjartastopp,“ segir Sæþór sem er einn þeirra sem hlaut skyndihjálparviðurkenningu Rauða kross Íslands, síðastliðinn föstudag.

„Við vorum fljót að átta okkur á því hvað var að og hófum lífgunartilraunir ásamt öðrum sem voru þarna. Það var bara að pumpa og halda í honum lífi þangað til lögreglan kom þarna með hjartastuðtæki. Við tengdum það við hann og gáfum honum nokkur stuð og komum honum í gang áður en sjúkrabíllinn kom þarna. Það gekk mjög vel og hann var bara mjög heppinn að hafa ekki fengið að stoppa í raun og veru.“

Sæþór hefur farið á nokkur námskeið í skyndihjálp en hann er í slökkviliðinu á Stykkishólmi. „Fólk verður bara að átta sig á því að þetta er sáraeinfalt sem þarf að gerast. Þetta er náttúrulega bara að halda öndunarveginum opnum, að blása í og halda blóðstreyminu. Þetta er engin stórkostleg eðlisfræði, það þarf bara að gera þetta sama þótt það sé ekki 100 prósent rétt.“

„Þetta var fyrsta mannslífið þarna en svo reyndar mánuði seinna lentum við slökkviliðið í að fara í útkall þar sem ég þurfti að fara inn og sækja mann,“ segir hann aðspurður hvort þetta hafi verið fyrsta mannslífið sem hann hefur bjargað. „Það er gríðarleg góð tilfinning að hafa getað aðstoðað þessa tvo.“

Sæþór og eiginkona hans eru búsett í Stykkishólmi en þar þekkjast flestir. „Það er kannski það einkennilega við þetta fyrir okkur svona úti á landi, þetta er svo lítið samfélag, að við þekkjum alltaf þá sem við þurfum að eiga við ef við lendum í þessu. Þetta er alltaf mjög persónulegt,“ segir Sæþór sem þekkir báða aðilana sem hann hefur bjargað.