Viðurkenning fyrir björgunarafrek veitt á 112 deginum á Blönduósi

13. feb. 2008

Rauða kross deildin í Austur Húnavatnssýslu afhenti Rúnari Þór Njálssyni viðurkenningu fyrir einstakt björgunarafrek á 112 deginum sl. mánudag. Rúnar bjargaði bekkjarbróður sínum sem var í sykurfalli með því að aka honum fárveikum í hjólastól að söluskála N1 á Blönduósi þar sem kallaður var til læknir.

Deildin tók þátt í dagskrá viðbragðsaðila á Blönduósi á 112 deginum með lögreglu, björgunarsveitinni og sjúkraflutningamönnum frá Heilbrigðisstofnun Blönduóss. Ingvi Þór Guðjónsson leiðbeinandi í skyndihjálp sýndi gestum endurlífgun og gestir fengu að æfa sig.

Einar Óli Fossdal formaður Rauða kross deildarinnar segir að vel hafi tekist til, þau fengu um 50 gesti, allt frá 1 árs og upp úr sem tóku þátt í dagskránni og gæddu sér á kaffi, svala og kleinum.
 
Ingvi Þór Guðjónsson leiðbeinandi í skyndihjálp kennir rétt viðbrögð við endurlífgun. Mynd: Jón Sigurðsson fréttaritari Morgunblaðsins.