Árni Valgeirsson fær viðurkenningu

Úr Stykkishómspóstinum

27. feb. 2006

Sumarliði og Árni við athöfn á vegum Rauða kross deildarinnar í Stykkishólmi.

Laugardaginn 11. febrúar minntu þeir aðilar sem sinna neyðarþjónustu hér á landi á samræmda neyðarnúmerið hér á landi, 112. Það er númerið sem á að hringja í þegar neyð ber að. En oft er það ekki nóg, því það getur þurft að grípa til aðgerða á meðan beðið er eftir björgunarfólki og þá er mikilvægt að kunna undirstöðuatriðin í skyndihjálp til að geta brugðist við.

Öll getum við lent í því að koma fyrst á slysstað, hvort sem um er að ræða inni á heimilum, vinnustað eða úti á götu. Rétt og skjót viðbrögð á slíkum neyðarstundum eru án efa eitt það mikilvægasta sem við lærum á lífsleiðinni. Þekking sem betra er að kunna og nota ekki en að standa frammi fyrir því að þurfa að nota hana og kunna þá ekki.

Rauði kross Íslands hefur undanfarin fimm ár staðið að tilnefningum á skyndihjálparmanni ársins á Íslandi til að minna á mikilvægi skyndihjálparinnar. Fimm einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek árið 2005 og meðal þeirra var Árni Valgeirsson Stykkishólmi.

Eins og bæjarbúum er kunnugt þá bjargaði hann lífi Sumarliða Bogasonar, vinnufélaga síns, sem lenti í hjartastoppi í janúar á síðasta ári. Árni hnoðaði lífi í Sumarliða þar til að sjúkrafólk kom á staðinn og er enginn vafi á því að rétt viðbrögð Árna björguðu lífi Sumarliða þennan dag.

Árni vildi þó ekki gera mikið úr afreki sínu því hann hefði aðeins gert það sem allir myndu hafa gert í hans aðstöðu en hann væri fyrst og fremst glaður að hafa getað hjálpað þegar til kom. Hann lagði áherslu á það að hann var ekki einn þegar atvikið kom upp á kaffistofunni út í Þórsnesi, þar voru fleiri sem hjálpuðu líka til.

Árni minntist einnig á það að viðbrögð hans hefðu verið ósjálfráð þegar atvikið kom upp og það sýnir hve mikilvægt það er að hafa einhvern tíma lært undirstöðuatriði skyndihjálparinnar. Því allir búa yfir þeim dýrmæta hæfileika að geta bjargað lífi en suma vantar einungis herslumuninn til að ná tökum á tækninni sem til þarf.