Blása, hnoða og stöðva blæðingu

Morgunblaðið

24. ágú. 2011

„Þúsundir sækja skyndihjálparnámskeið Rauða kross Íslands á hverju ári. Handtökin á ögurstundu séu fumlaus og örugg. Endurlífgun og opin sár. Rétt viðbrögð skipta öllu,“ segir Gunnhildur Sveinsdóttir verkefnisstjóri. Önnur námskeið eru einnig fjölsótt. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 19.08.2011.

„Í dagsins önn er mikilvægt að kunna helstu atriði skyndihjálpar og ekki síður að halda kunnáttunni við. Því höfum við mælt með að fólk sæki námskeið á minnst tveggja ára fresti. Þegar á reynir þurfa öll handtök að vera fumlaus og snör. Á ögurstundu, þegar sekúndur skipta máli, er ótækt að fólk þurfi að taka sér stund til að rifja upp hvernig standa skuli að málum,“ segir Gunnhildur Sveinsdóttir, verkefnisstjóri skyndihjálparfræðslu hjá Rauða krossi Íslands.

Á vetri hverjum sækja um fimm þúsund manns skyndihjálparnámskeið Rauða kross Íslands. Þau eru haldin á vettvangi þeirra fimmtíu deilda félagsins sem starfa hringinn í kringum landið. Þá er talsvert um að leiðbeinendur sinni skyndihjálparfræðslu, t.d. í fyrirtækjum, skólum og víðar.

„Sumir stjórnendur fyrirtækja eru mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að þeirra fólk fái lágmarksfræðslu um hvernig veita skal hjálp. Flestir taka þá fjögurra klukkustunda námskeið fyrir sitt fólk en aðrir stíga skrefið til fulls með lengri námskeiðum,“ segir Gunnhildur.

Á fimm ára fresti eru gefnar út nýjar alþjóðlegar leiðbeiningar í skyndihjálp og endurlífgun sem taka mið af niðurstöðum nýjustu rannsókna á þessu sviði. Samkvæmt því er námsefni í stöðugri deiglu og þróun. Þráðurinn í fræðslunni er þó alltaf sá sami; fólk lærir t.d. helstu atriði í endurlífgun. Þá gildir að hnoða brjóst þess sem er í hjartastoppi þrjátíu sinnum og blása svo tvisvar í munn viðkomandi. Einnig er fjallað um hvernig stöðva megi blæðingu á opnu sári og veita fyrstu hjálp fái fólk hjartverk fyrir brjósti, bráðaofnæmi, flogaköst eða sykurfall vegna sykursýki.

Þessar mínútur eru afar þýðingarmiklar og rétt viðbrögð nærstaddra geta í raun skilið milli lífs og dauða
„Hér á Reykjavíkursvæðinu er sjúkrabíll fimm til sjö mínútur á vettvang eftir að fólk hefur hringt í Neyðarlínuna. Þessar mínútur eru afar þýðingarmiklar og rétt viðbrögð nærstaddra geta í raun skilið milli lífs og dauða. Fólk lærir líka á námskeiðunum hvernig nota skuli hjartastuðtæki við endurlífgun en slík tæki eru, til dæmis í verslunarmiðstöðvum, skólum, íþróttahúsum og víðar. Þau eru sáraeinföld í notkun en þá skiptir líka öllu máli að kunna rétta notkun þeirra,“ útskýrir Gunnhildur sem segir vitund stjórnenda fyrirtækja um að mennta sitt fólk í skyndihjálp verða sífellt meiri. Skyndihjálparnámskeiðin hafi verið sótt af skrifstofufólki og starfsfólki útfararstofa - og öllum þar á milli.

Önnur námskeið á vegum Rauða krossins séu einnig á góðu róli og njóti vinsælda. Megi þar nefna námskeiðið Slys og veikindi barna sem ætlað er foreldrum og forráðamönnum. Einnig Börn og umhverfi, en það námskeið er mikið sótt af krökkum á unglingsaldri sem sinna barnagæslu.

[email protected]