Sálræn skyndihjálp

12. maí 2004

Umhyggja – snerting - virk hlustun – heiðarleiki – einlægni – návist - þolinmæði

Þó við séum ólík hver öðru í útliti og háttum, þá eru þarfir okkar í kjölfar alvarlegra atburða ótrúlega líkar. Við eigum það t.d. öll sameiginlegt að þarfnast umhyggju og ástúðar annarra, sérstaklega þegar slys eða veikindi ber að höndum. Þegar áföll og erfiðleikar steðja að er mikilvægt að geta veitt sínum nánustu stuðning og styrk. Slík aðstoð er ómetanlegt þeim sem hana þiggur þó hann sé ekki alltaf sáttur við slík afskipti til að byrja með. Það er mikilvægt að þekkja þau líkamlegu og sálrænu einkenni sem geta komið fram hjá fólki sem verður fyrir áfalli og hvernig bregðast mefi við þeim á sem árangursíkan hátt. Þegar þú veitir öðrum sálræna skyndihjálp felur það í sér líkamlega og andlega aðhlynningu til þeirra sem hafa orðið fyrir alvarlegum atburðum. Um að ræða aðstoð sem nálægð, hlýja, umhyggja svo og hæfileikinn til að hlusta felur í sér, en á þessum þáttum öllum byggja góð mannleg samskipti.

Lífið gengur oftast sinn vanagang og það hvarflar ekki að okkur að eitthvað geti komið fyrir sem setur lífið úr skorðum og breytir tilverunni að meira eða minna leyti. En slíkt getur gerst fyrirvarlaust. Margs konar atvik, lífsreynsla og aðstæður eru eðlilegur þáttur í tilveru okkar. Allt slíkt þekkjum við vel og vitum hvernig bregðast skal við því. En stöku sinnum verðum við fyrir einhverju sem við höfum aldrei kynnst áður og vitum ekki hvernig bregðast eigi við. Þessi reynsla hefur því óvænt áhrif á okkur og við finnum fyrir margvíslegum tilfinningum og hugsunum sem við hefðum aldrei trúað að við ættum eftir að upplifa. Sænskur geðlæknir að nafni Cullberg lýsir ferli sem við göngum í gegnum þegar við verðum fyrir áfalli. Um er að ræða eftirtalin fjögur stig, áfall, viðbrögð, úrvinnslu og áttun. Eftir áfallið erum við yfirkomin af tilfinningum og ringluð, hætta er á að glata tímabundið dómgreind og viðkomandi getur verið ófær um að aðhafast nokkuð. Á viðbragðsstigi skynjum við þær tilfinningar sem atburðurinn hefur leyst úr læðingu og okkur líður illa, hér getum við fundið fyrir ýmsum líkamlegum einkennum sem lýst verður nánar síðar. Á úrvinnslustigi eru þær tilfinningar og hugsanir sem tengjast atburðinum ekki lengur alls ráðandi og við getum betur áttað okkur á því sem gerst hefur og unnið með það. Að lokum tekur við áttun og við getum horft til framtíðar á ný. Það að ganga í gegnum þessi stig kann að sýnast auðvelt og ferlið stutt. Svo er þó ekki og geta liði margir mánuðir og jafnvel ár áður en viðkomandi lýkur ferlinu. Í einstaka tilfellum getur þetta ferli gengið illa og þá aþrf að leita sérfræðsiaðstoðar.

Undir því mikla álagi sem skapast þegar fólk upplifir erfiða atburði lætur líkaminn vita. Hann bregst sjálfkrafa við og einkenni á borð við; örari hjartslátt, hraðari öndun, óþægindi frá maga, þvalar hendur, svita, órólegar hreyfingar og óstyrka rödd gera vart við sig. Sé ástandið viðvarandi geta komið fram enn sterkari einkenni eins og höfuðverkur, magaverkur, niðurgangur eða harðlífi, svefntruflanir og vöðvar verða stífir og aumir. Talað er um langvarandi streitu þegar viðbrögð líkamans eru farið að leiða til vanlíðunar sem getur birst í t.d., mikilli þreytu og svima, vera sífellt illa upplagður, almennu áhugaleysi, hræðslu við hið óþekkta, óróleika og eirðarleysi.

Það skyldi enginn leiða það hjá sér að taka skilaboð líkamans alvarlega og hlusta á eigin tilfinningar. Reyna að gera sér grein fyrir hugsunum sínum og tilfinningum varðandi það sem hefur átt sér stað. Ekki hika við að leita til annarra og ræða við þá um það sem kann að þykja óþægilegt. Láta eftir sér umhyggju og athygli annarra. Samtöl eru mikilvægasta hjálpartækið. Sá sem hefur erfiða reynslu að baki hefur mikla þörf fyrir að tala um hana. Sá sem er að hjálpa þarf að geta hlustað af einlægni og áhuga á það sem sagt er.

Það þarf kjark til að vera heiðarlegur og opinskár. En þá skila samskipti manna líka meiru; verða einlægari og þroskaðri. Sýndu sjálfum þér og öðrum þolinmæði og nærgætni, það leggur grunn að trausti og veitir öryggi. Sálræn skyndihjálp getur skilað góðum árangri ef við opnum okkur hvort fyrir öðru og veitum hvort öðru stuðning þegar lífið er erfitt. En við skulum hafa í huga að vitaskuld eru sumar aðstæður þess eðlis að ekki er hægt að ráða fram úr þeim með aðstoð vina einni saman og þá er þörf á aðstoð fólks með faglega þekkingu. Við skulum samt hafa hugfast að fagleg hjálp útilokar ekki að þörf sé fyrir mannlegan stuðning hinna nánustu – þvert á móti.

Rauði kross íslands hefur í nokkur ár boðið upp á námskeið í sálrænni skyndihjálp fyrir almenning og fagstéttir. Markmið námskeiðanna er að þátttakendur kynnist gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

1 kennslustund; Farið er í þætti sem lúta að hvað er áfall? Áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn og helstu þætti sálrænnar skyndihjálpar.

6 kennslustundir; Farið er í eftirtalda þætti. Hvað er áfall? Áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, sjálfsrýni – hvað get ég gert? Stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, munur á alvarlegum atvikum og glímunni við lífið. Mismunandi tegundir áfalla og áhrif streitu á einstaklinginn. Sorg og sorgarferlið.

13 kennslustundir; Rætt er um hvað er sálrænn stuðningur? Áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn. Sálræn skyndihjálp, sjálfsrýni – hvað get ég gert?

Tjáning og hlustun, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, munur á alvarlegum atvikum og glímunni við lífið, mismunandi tegundir áfalla, áhrif streitu á einstaklinginn, sorg og sorgarferlið, áhrif áfalla á börn. Námskeiðið er í formi fyrirlestra og verklegra æfinga.

Greinin er unnin upp úr eftirtöldum heimildum.

Heimildir;

1. Uffe Kirk, Sálræn skyndihjálp, 1997, Rauði kross Íslands, Vaka Helgafell

2. Hanne Bræmer, Þegar lífið er erfitt, 2000, Rauði kross Íslands, Ísafoldarprentsmiðja

3. Lisa knudsen, Psykisk forsthjelp og medmenneskelig stotte, Dansk Rode kors 1997.