Slys á börnum- slysavarnir og skyndihjálp

12. maí 2004

Í heilbrigðisáætlun fram til ársins 2010, er það eitt af forgangsverkefnum að draga úr slysum og slysadauða barna um 25%. Eitt megin forvarnaverkefni Rauða kross Íslands til margra ára er kennsla til almennings í skyndihjálp og slysavörnum sem hefur það að markmiði að draga úr slysum og stuðla að réttum viðbrögðum við slysum og áföllum og auka á þann hátt öryggi allra landsmanna. Námskeiðið Slys á börnum, forvarnir – skyndihjálp hefur verið haldið af deildum félagsins um land allt í fjölmörg ár. Á námskeiðunum leiðbeina hjúkrunarfræðingar sem lokið hafa sérstöku leiðbeinendanámskeiði hjá Rauða krossinum.

Börnin eru okkur hugleikin og það dýrmætasta sem við eigum. Það er því skylda okkar að vera meðvituð um það umhverfi sem barnið okkar lifir og hrærist í. Áætlað er að hér á landi þurfi 20.000 – 22.000 börn að leita læknis ár hvert vegna áverka af völdum slysa. Þegar orsakir slysa eru skoðaðar kemur í ljós að hægt hefði verið að koma í veg fyrir mörg þessara slysa. Verum viðbúin þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og höfum það í huga að stór hluti forvarna hvílir á okkar herðum.

Skyndihjálp vegna aðskotahlutar í hálsi

Sú hugsun um að eitthvað standi fast í hálsi barns er mjög ógnvekjandi. Aðskotahlutur í hálsi getur og sett barnið í bráða lífshættu. Alltaf ber að athuga meðvitund, opna öndunarveg, athuga öndun og líta eftir aðskotahlut í munni. Aðskotahlutur getur lokað öndunarveginum og valdið því að barnið kafnar. Ef öndunarvegur er alveg lokaður og barnið getur ekki andað, talað, grátið eða hóstað en er með meðvitund, ber að framkvæma eftirfarandi:


Ungbörn (0-1 árs)

1. Kalla á hjálp. Leggðu svo barnið á útrétta hönd þína og láttu höfuðið snúa niður. Sláðu snöggt með þykkhöndinni 5 sinnum á milli herðablaða barnsins.

2. Snúðu barninu við og leggðu tvo fingur á bringubeinið, fyrir neðan geirvörtur. Þrýstu 5 sinnum á bringubeinið.

3. Endurtakið þar til losnar um hlutinn. Ef barnið missir meðvitund hringið í 112 og metið síðan ástand barnsins, hefjið endurlífgun ef þarf, blásið 1 sinni og hnoðið 5 sinnum þar til hjálpin berst eða barnið andar/hóstar á ný.


Börn(1-8 ára)

1. Ef barnið getur ekki andað, talað, grátið eða hóstað en er með meðvitund. Leggðu aðra höndina fyrir ofan nafla og gríptu um hnefann með með hinni hendinni.

2. Þrýstu 5 sinnum snöggt inn á við og upp. Ef barnið missir meðvitund, hringið í 112.

3. Metið ástand barnsins og byrjið endurlífgun ef þarf.

4. Þrýstu á bringubein barnsins með annarri hendi, um það bil 2,5 – 4 cm.

5. Blástu einu sinni og hnoðaðu 5 sinnum til skiptis, eða þar til hjálp berst.


Höfuðáverkar barna

Talsvert er um það að börn detti og fái áverka á höfuðið. Afleiðing höfuðáverka getur verið blæðing og bólga á heila. Í kjölfar höfuðáverka getur barnið misst meðvitund stutta stund, orðið lítilsháttar ruglað og man oft ekki hvað kom fyrir. Hversu alvarleg afleiðing fallsins er veltur á því hversu hátt fallið er, á hverju barnið lendir og hvað það rekst í við fallið. Því er mikilvægt að skilja barnið aldrei eftir eitt á þeim stað þar sem hætta er á að það geti dottið, kenna barninu að fara varlega og nota réttan öryggisbúnað. Þó að flestir höfuðáverka séu lítilsháttar þarf að huga að hættumerkjum.

Hættumerki höfuðáverka eru eftirtalin;

Lækkandi meðvitundarstig – sinnuleysi, óeðlileg svefnhöfgi eða óeðlilega djúpur svefn (erfitt að vekja), óráð, sár eða vaxandi höfuðverkur, ógleði, uppköst, sjóntruflanir, t.d. tvísýni og svimi og breytinga á persónuleika.


Skyndihjálp vegna höfuðáverka

Ef barnið er meðvitundarlaust, hringið strax á sjúkrabíl og fylgist vel með öndun og blóðrás. Þó barnið missi ekki meðvitund verður að fylgjast vel með því, hafið í huga einkenni eins og syfju, uppköst og breytingar á meðvitund. Ef breyting verður á barninu hafið samband við lækni. Líti barnið út fyrir að vera eðlilegt fyrst á eftir þá fylgist vel með því. Það þýðir að barnið þarf að hafa kyrrt um sig í að minnsta kosti 2-4 klst á eftir. Sé um lítið barn að ræða og það orðið syfjað af eðlilegum ástæðum er í lagi að það sofni,en mikilvægt er að ýta við því eftir um það bil 30 mínútur og athuga hvernig það bregst við. Ýtið við barninu á 2 tíma fresti næstu 8 tímana. Farið aldrei lengra í burtu en svo að þið getið heyrt til þess ef eitthvað kemur uppá.

Lost

Barn sem tapar miklu blóði getur farið í lost. Bruni, ofnæmi, sýkingar, eitranir, alvarleg beinbrot eða aflimanir geta einnig valdið losti svo og langvarandi uppköst og niðurgangur. Lost getur verið lífshættulegt og því mikilvægt að greina það fljótt og meðhöndla. Einkenni losts eru;

1. Föl og köld húð (sum börn svitna)
2. Hraður púls
3. Hröð og grunn öndun
4. Svimi
5. Syfja og slappleiki
6. Uppköst

Skyndihjálp við losti felst í að leggja barnið niður og róa það, hækka undir fótum með púðum eða teppi. Hafa í huga að meðhöndla áverka/veikindi sem valda losteinkennum og hringja á sjúkrabíl. Haldið hita á barninu með því að breiða teppi yfir það. Gefið því ekkert að borða né drekka, þó er í lagi að væta varir þess með vatni.


Svanhildur Þengilsdóttir
Deildarstjóri heilbrigðissviðs Rauða kross Íslands
svanhildur@redcross.is