Einfaldari skyndihjálp fyrir alla

Jón Brynjar Birgisson.

12. maí 2004

Sá útbreiddi misskilningur hefur lengi verið ríkjandi að skyndihjálp sé eitthvert flókið fyrirbæri sem maður þurfi að eyða mikilli orku og tíma í að læra. Kannski var þetta skiljanlegt áður fyrr en á síðustu árum hefur mikið verið gert til að einfalda hana og nú er skyndihjálp orðin það einföld að eftir stutt námskeið ætti nemandinn að hafa öðlast nær alla þá þekkingu sem hann þarf á að halda. Þetta ætti að liggja í hlutarins eðli enda kemur það öllum til góða að skyndihjálp sé almenn kunnátta, rétt eins og að lesa og skrifa.

Tökum endurlífgun sem dæmi. Áður fyrr virkaði hún talsvert flókin fyrir mörgum og ýmislegt þurfti að muna, svo sem nákvæman hnoðstað, hnoðhraða, púlstöku og fleira. Nú erum við loksins búin að einfalda hana mjög mikið. Hætt er að kenna flóknar aðferðir við að finna hnoðstað, heldur er hann einfaldlega mitt á milli geirvartnanna, á miðjum brjóstkassa. Fáeinir sentimetrar til eða frá skipta ekki alltaf höfuðmáli. Þá þarf ekki lengur að finna púls til að meta hvort maður á að beita bæði blástursmeðferð og hjartahnoði eða eingöngu blástursmeðferð. Ef sjúklingur andar ekki er tekin full endurlífgun með hjartahnoði og blástursmeðferð. Allar þessar breytingar hafa verið gerðar í samvinnu við hjartalækna og aðra sérfræðinga á þessu sviði.

Mikilvægi þess að kunna endurlífgun er ekki alltaf ljóst fyrir fólki. Þeir sem búa í stærri bæjum vita að viðbragðstími sjúkrabíla er yfirleitt mjög stuttur, oft undir fimm mínútum og því iðulega stutt í sérhæfða aðstoð. En það er ekki alltaf nóg. Tilgangur hjartahnoðs er í raun ekki endilega að ,,endurlífga" eins og nafnið gefur til kynna, heldur að halda lágmarks blóðstreymi um líkamann eða ,,smá-flökti" á hjartalínuritinu. Verði ,,línan" flöt er mun ólíklegra að endurlífgun takist með hjartastuðtækjum og lyfjagjöf. Einnig er heilanum tryggt lágmarks-súrefni með endurlífguninni. Það þarf oft ekki mikið meira en að heilinn sé fjórar mínútur án súrefnis til að varanlegur heilaskaði fari að myndast. Þetta sannar að tíminn sem líður frá því að sjúklingurinn hættir að anda og þangað til sjúkrabíllinn kemur skiptir öllu máli. Og við, skyndihjálparfólkið, almenningurinn, berum ábyrgð á sjúklingnum á þeim tíma.

Menn kinoka sér oft við að veita skyndihjálp. Helsta ástæðan er að fólk er hrætt við að gera mistök, eða jafnvel gera illt verra. En slíkar vangaveltur eiga sjaldnast við rök að styðjast. Maður gerir nánast alltaf gagn, líka þótt endurlífgunin sé ekki alveg nákvæmlega rétt, grisjan snúi öfugt eða sálræna skyndihjálpin sé hálf-klaufaleg. Það er heldur ekki hægt að draga neinn til ábyrgðar fyrir að veita ranga skyndihjálp en öðru máli gegnir ef fólk neitar að aðstoða sjúklinginn.

Skyndihjálparnámskeið fyrir almenning eru 16 kennslustundir að lengd og kostnaði við þau er haldið í lágmarki. Deildir Rauða kross Íslands sjá meðal annarra um að halda þau. Nánari upplýsingar um næsta námskeið fást á skrifstofu Rauða kross Íslands í síma 570 4000 og hjá deildum um land allt. Ungmennahreyfing Rauða krossins hvetur meðborgara sína til að skrá sig, fjölskyldu sinnar vegna og allrar þjóðarinnar.