Hringja og hnoða !

12. maí 2004

Talið er að fjöldi þeirra sem deyr skyndidauða utan sjúkrahúsa sé á bilinu 120 til 140 á ári. Hjá fullorðnum er hjartastopp orsök skyndidauða í 80% tilvika. Endurlífgun eins og hún snýr að almenningi felur í sér öndunaraðstoð með munn við munn aðferðinni og hjartahnoði. Mörgum þykir endurlífgun flókin í framkvæmd, sér í lagi öndunaraðstoðin, og skortir fólk oft kunnáttu. Í þessu ljósi hefur verið ákveðið að kynna nýjar áherslur um endurlífgun með það að markmiði að bjarga fleiri mannslífum og bæta lífsskilyrði.

Endurlífgunarráð, Landlæknisembættið og Rauði kross Íslands

Hjartastopp hjá fullorðnum er í meirihluta tilfella vegna taktruflana frá neðri hólfum hjartans s.k. sleglatatkttruflunum (sleglahraðtaktur og sleglatif).

Mikilvægustu viðbrögð almennings við hjartastoppi eru að hringja eftir hjálp og hefja síðan grunnendurlífgun meðan beðið er eftir sjúkrabíl. Aðkoma sjúkrabifreiðar með hjartarafstuðstæki er oftast nauðsynleg til að hægt sé að koma á réttum takti á ný. Líkurnar á að koma á réttum takti fara dvínandi með hverri mínútu sem líður án rafstuðsgjafar. Ef takast á að auka lifun þeirra sem fara í hjartastopp utan sjúkrahúss er mjög mikilvægt að auka þátttöku vitna á endurlífgun og eins auka aðgengi að rafstuðsgjöfum. Eins og staðan er slík tæki í dag er einungis að finna í sjúkrabifreiðum og á sjúkrahúsum.

Hjartahnoð er lykilviðbragð ef vitni eru að hjartastoppi. Hjartahnoð getur lengt þann tíma sem sjúklingur er í sleglahraðtakti eða sleglatifi og seinkað komu rafleysu. Þetta eykur líkurnar á að mögulegt sé að koma á eðlilegum takti með rafstuðsgjöf. Hjartahnoð getur jafnframt viðhaldið einhverju blóðflæði til heila og dregið úr hættu á varanlegum heilaskemmdum ef endurlífgunin er árangursrík.

Við skilgreinum hjartastopp þannig fyrir almenning að um sé að ræða fullorðinn einstakling sem hnígur niður, er meðvitundarlaus og svarar ekki áreiti. Ekki er lengur þörf á að staðfesta púlsleysi.

Mun við munn öndun þykir flókin og viss tregða kann að vera meðal almennings að beita grunnendurlífgun sem felur í sér bæði munn við munn öndunaraðstoð og hjartahnoð. Jafnframt hefur komið í ljós að ef til vill er öndunarþátturinn ekki jafnmikilvægur á fyrstu mínútunum eftir hjartastopp og áður var talið. Því hefur jafnvel verið velt upp hvort öndunaraðstoð á allra fyrstu mínútunum eftir hjartastopp geti jafnvel gert visst ógagn. Öndunaraðstoð tefur fyrir hjartahnoði og veldur truflunun á framkvæmdum þess. Þetta hefur mjög neikvæð áhrif á flæðiþrýsting í kransæðum og heilaæðum. Jafnframt gæti mun við munn öndun stuðlað að þenslu á maga og uppköstum.

Rannsóknir í tilraunamódelum sýna að súrefnismettun hjá dýrum sem höfðu eðlilega súrefnismettun fyrir hjartastopp hélst hún yfir 90% í allt að 4 mínútur með hjartahnoði eingöngu. Tilraunir sýna einnig að þeim vegnar jafnvel sem fá hjartahnoð eingöngu og þeim sem fá bæði hjartahnoð og öndunaraðstoð á fyrstu mínútunum eftir hjartastopp.

Þetta var einnig niðurstaða rannsóknar á sjúklingum sem fóru í hjartastopp í Seattle í Bandaríkjunum og birtist í New England Journal of Medicine árið 2000. Þó svo að undirbúningi Guidelines 2000 hafi verið lokið þegar þessi grein birtist er ýjað að því í þeim leiðbeiningum að þeir sem verða vitni að hjartastoppi en treysta sér ekki til að framkvæma fulla endurlífgun framkvæmi hjartahnoð eingöngu eftir að hringt hefur verið á aðstoð.

Endurlífgunarráð hefur fjallað ítarlega um hvort ástæða sé til að leggja til breytingar á framkvæmd grunnendurlífgunar við hjartastoppi utan sjúkrahúss fyrir almenning með hliðsjón af þesum nýju upplýsingum. Leggjum við til að þeir sem verða vitni að hjartastoppi, hafa ekki hlotið þjálfun í grunnendurlífgun eða treysta sér ekki til að framkvæma slíkt hver svo sem ástæðan er hefji hjartahnoð tafarlaust eftir að þeir hafa hringt í neyðarlínuna –112. Hjartahnoð er framkvæmt með því að ýta með báðum höndum á mitt bringubein um 80-100 sinnum á mínútu. Á sama tíma viljum við ekki banna þeim sem kunna rétt handtök að beita blástursaðferðinni en leggjum þó áherslu á að það hvorki seinki eða trufli framkvæmd hjartahnoðsins.

Undantekningar frá þessu eru ef líklegt er talið að öndunarstop sé frekar orsök meðvitundarleysis. Þetta á t.d. við börn innan 12 ára, drukknanir, slæm astmaköst, hengingar, flest slys og lyfjaeitranir. Í slíkum tilfellum er jafnframt nauðsynlegt að veita munn við munn öndunaraðstoð.

Ráðleggingar Endurlífgunarrráðs um að HRINGJA OG HNOÐA eiga því fyrst og fremst við þá sem verða vitni að hjartastoppi hjá fullorðnum, hafa ekki þjálfun í fullri endurlífgun og/eða treysta sér ekki til að framkvæma slíkt. Þessar ráðleggingar eiga ekki við þá sem fara í hjartastopp í dreifbýli þar sem meira en 5-7 mínútur geta liðið þar til sjúkrabifreið kemur á vettvang.

Endurlífgunarráð leggur ekki til að kennslu í grunnendurlífgun verði breytt á þessu stigi, enda ljóst samkvæmt ofansögðu að gagnlegt getur verið að kunna munn við munn öndun.