Skyndihjálparhópur URKÍ

Birgir Freyr Birgisson

12. maí 2004

Sjálfboðaliðar Skyndihjálparhóps URKÍ sinna sjúkragæslu á tónleikum, framhaldsskólaböllum, útihátíðum og víðar. Hópurinn er svipaður sjúkrahópum björgunarsveita. Ýmislegt getur gerst á vöktum og því eru sjálfboðaliðarnir vel þjálfaðir í skyndihjálp, sálrænni skyndihjálp, aðkomu að nauðgunum og starfstækni á vettvangi. Oftast eru vaktir þó rólegar og mestur tími sjálfboðaliða fer í að bíða eftir verkefnum eða fylgjast með þeim sem þurfa að sofa úr sér. En þegar mikið er að gera eins og til dæmis á útihátíðum þá getur margt gerst sem snertir mann djúpt og því er eining sjálfboðaliðanna á vaktinni mikilvæg svo allt gangi vel. Sjálfboðaliðar starfa út frá grundvallarmarkmiðum Rauða krossins. Við höfum ekkert að gera í þessu starfi ef við höfum ekki mannúð að leiðarljósi og hjálpum þeim sem til okkar leita á hlutlausan hátt. Skyndihjálparhópur veitir sjálfboðna þjónustu þar sem þörfin er. Það er mikilvægt fyrir okkur að vera hlutlaus í deilumálum til að njóta trausts þeirra sem til okkar leita og því tökum við ekki afstöðu með eða á móti deiluaðilum í slagsmálum eða þess háttar. Aftur á móti tökum við afstöðu með þeim sem minna mega sín.

Til að geta farið á vaktir með hópnum þarf fólk að vera orðið 18 ára og hafa lokið skyndihjálparnámskeiði og námskeiðinu Starf á vettvangi. Fólk þarf ekki neinn sérstakan eiginleika til að verða góður sjálfboðaliði í Skyndihjálparhóp eða öðrum verkefnum á vegum Rauða krossins, það nægir að hafa viljann til að láta gott af sér leiða.

Frekari upplýsingar um skyndihjálparhóp er að finna á www.redcross.is/urki eða í síma 551 8800.