Kunnátta í endurlífgun varðar okkur öll.

Hildigunnur Svavarsdóttir og Svanhildur Þengilsdóttir

12. maí 2004

Það að verða vitni að hjartastoppi er atburður sem flestir myndu vilja sleppa við á lífsleiðinni. Slíkur atburður er ógnvekjandi því oft man fólk ekki eða hreinlega veit ekki hvernig það á að bregðast við. Ótti og mikil skelfing grípur oft um sig og sýna rannsóknir að færri en helmingur nærstaddra hefur strax endurlífgunartilraunir á þeim sem er í hjartastoppi.

Það verður að horfast í augu við þá staðreynd að kunnátta í endurlífgun varðar allt okkar samfélag. Tölur sýna að á Íslandi verða á milli 200-250 hjartastopp á ári og allt of fáir treysta sér til þess að hefja endurlífgun, ástæðurnar eru hugsanlega hræðsla við smit, hræðsla við að geta ekki beitt réttum handtökum eða kunnáttuleysi.
Fyrstu mínúturnar eru mikilvægastar hvað varðar lífslíkur og afdrif þess sem lendir í hjartastoppi, svo mikilvægar að ekkert skiptir meira máli en að hefja endurlífgun strax eftir að kallað hefur verið á aðstoð. Því þurfa allir að kunna fyrstu viðbrögð til þess að geta gengið strax til verka í björgun mannslífa. Ferlið og handtök tengt endurlífgun eru í sjálfu sér ekki flókin og því ættu flestir að geta beitt þeim þegar á reynir eftir að hafa farið í gegnum bóklega og verklega leiðsögn hjá þjálfuðum leiðbeinendum.

Markviss og hnitmiðuð kennsla í endurlífgun er því lykillinn að réttum og fumlausum viðbrögðum. Því fyrr sem byrjað er að kenna endurlífgun þeim mun meiri líkur eru á að handtökin festi sig í minni og þeim sé rétt beitt. Það er því óneitanlega ekki hægt að horfa fram hjá þátttöku skólayfirvalda og heilbrigðiskerfisins í því að marka stefnu og stórefla fræðslu í endurlífgun á sem breiðustum grunni með það í huga að gæði kennslunnar komi samfélaginu að sem bestum notum. Það er ekki nægjanlegt að slík fræðsla sé einungis í höndum félagasamtaka og áhugamanna. Það þarf að gera endurlífgun að skyldunámi í grunn- og framhaldsskólum alveg frá 10 ára aldri, sérstaklega í ljósi þess hve börn eru móttækileg fyrir fræðslu og nýjungum. Í framhaldinu þarf svo að miða kennsluna að færni hvers og eins. Hafa þarf í huga að almenningur hafi gott aðgengi að fræðsluefni og að öllum gefist kostur á að sækja námskeið. Rauði kross Íslands hefur til margra ára haft umsjón með útgáfu á fræðsluefni og útbreiðslu þekkingar í skyndihjálp til almennings með það að markmiði að sem flestir geti brugðist við hinum mismunandi aðstæðum sem upp geta komið í daglegu lífi. Kennsla í endurlífgun er einn mikilvægur þáttur þessarar fræðslu. Haldin hafa verið námskeið fyrir þá aðila sem vilja öðlast réttindi til að leiðbeina almenningi í fræðum skyndihjálpar og deildir félagsins um land allt bjóða reglulega upp á námskeið fyrir þá sem þess óska.

Endurlífgunarráð landlæknis mælir eindregið með því að aðgerðir í endurlífgun verði einfaldaðar og stuðli þannig að aukinni þátttöku almennings í endurlífgun. Endurlífgunarráð kynnir um þessar mundir nýjar áherslur í endurlífgun, Hringja – Hnoða, þar sem fyrstu viðbrögð við hjartastoppi eru að hringja á 112 og hefja svo strax hjartahnoð að því loknu. Almenningur er því hvattur til að kynna sér þessar aðferðir og stuðla þannig að björgun mannslífa.

Hildigunnur Svavarsdóttir og Svanhildur Þengilsdóttir.
Höfundar eru hjúkrunarfræðingar og sitja í Endurlífgunarráði Íslands.