Til leiðbeinenda í skyndihjálp

Svanhildur Þengilsdóttir

12. maí 2004

Í ljósi umræðna sem átt hafa sér stað að undanförnu í tengslum við útbreiðslu HABL (heilkennis alvarlegrar bráðrar lungnabólgu) telur Rauði kross Íslands rétt að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri til leiðbeinenda í skyndihjálp. Skilaboðin eru meðal annars byggð á upplýsingum frá smitsjúkdómalækni Landlæknisembættisins.

Allmargir hafa áhyggjur af því að mögulegt sé að smitast af sjúkdómum þegar þeir veita skyndihjálp (sjúkdómum eins og hepatitis B, C og HIV.) Hættan á að verða fyrir smiti slíkra sjúkdóma þegar veitt er skyndihjálp er mun minni en fólk heldur og ekki eru tiltækar neinar rannsóknir sem sanna slík smit. Almenn skynsemi ásamt því að framkvæma ákveðnar varúðarráðstafanir og hreinlæti minnka smithættu enn frekar. Í mörgum löndum mæla heilbrigðisyfirvöld með eða krefjast þess að aðilar starfandi innan heilbrigðisþjónustunnar séu bólusettir.

Rétt er að leggja áherslu á almennar varúðarráðstafanir sem ætíð er gott að hafa í huga. Verjast má smiti af völdum sjúkdóma í blóði með því að fylgja nokkrum einföldum atriðum. Hvetja skal alla til þess að veita skyndihjálp til þeirra sem þarfnast slíkrar hjálpar, án tillits til kynþáttar og að meðhöndla alla einstaklinga með virðingu.

· Ávallt skal þó gæta ítrustu varúðar og hafa í huga smitvarnir gegn hugsanlegu smiti.
· Handþvottur með vatni og sápu um leið og búið er að veita skyndihjálp. Einnig skal þvo hendur ef hægt er að koma því við áður en skyndihjálp er veitt.
· Forðast að snerta líkamsvessa. Allt það sem er mengað af blóði eða öðrum líkamsvessum ætti skyndihjálparmaður alls ekki að snerta nema í hlífðarhönskum.
· Snertið ekki glerbrot eða aðra oddhvassa hluti sem geta legið nálægt hinum slasaða, ef nauðsynlegt er að fjarlægja þá þarf að gæta ítrustu varfærni.
· Alltaf skal hylja sár eða skrámur sem eru á höndum skyndihjálparmanns með hreinum umbúðum eða plástri.
· Forðast skal að hósta, hnerra eða tala yfir blæðandi sári.
· Ef hanskar eru tiltækir ætti að nota þá þegar skyndihjálp er veitt. Ef þeir eru ekki við hendina má notast við hvaðeina sem skýlir höndum eins og hreint plast eða klæði. Handþvottur er mikilvægur þegar búið er að losa sig við hanska eða annað slíkt, einnig er æskilegt að þvo hendur áður en hanskar eru settir upp. Þegar munn við munn aðstoð er beitt er mælt með notkun á öndunargrímu ef hún er við höndina, en nota má vasaklút í staðinn.
· Setja skal einnota rusl (grisjur, hanska og þess háttar) í lokaða plastpoka. Fleygja verður menguðum efnum eða nálum í þar til gerð ílát.
· Ef sá sem veitir skyndihjálp telur sig hafa komist í snertingu við líkamsvessa hins slasaða ætti sá hinn sami að leita frekari upplýsingar hjá heilbrigðisstarfsmanni um hvað skal gera.

Varðandi HABL og blástur í kennslubrúður

Það er engin ástæða til að fólk blási ekki í kennslubrúður þrátt fyrir tilkomu HABL. Eins og staðan er í dag eru ekki nein HABL tilfelli á Íslandi þannig að líkur á því að smitast á skyndihjálparnámskeiði hér á landi eru hverfandi. Þó er rétt að leggja áherslu á það að ef einhver á námskeiði er með sár á slímhúð í munni eða á vörum, veikur, t.d. með einkenni frá öndunarfærum eða með hita að hann blási ekki í brúðurnar. Bæði er óþarfi að smita fólk af kvefi og auk þess smitar HABL ekki nema viðkomandi sé með einkenni. Rétt er þó að taka fram að alltaf skal hafa í huga hreinlæti og hreinsa munn brúðunnar bæði fyrir og eftir æfinguna og á milli þátttakenda sem blása. Þurrkið vel andlit brúðunnar og munn að innan og utan eftir notkun. Notið spritt, bíðið í 30 sekúndur og þurrkið aftur yfir með þurrum hreinum klút. Auk þess er gott að geyma brúðurnar opnar til að koma í veg fyrir að raki með tilheyrandi sýklagróðri safnist fyrir inni í dúkkunni.

Ekki eru vitað um nein skráð tilfelli þar sem notkun á kennslubrúðu hafi leitt til smits á bakteríu-, sveppa- eða vírussjúkdómum. Góð hreinsun og sótthreinsun minnkar hættuna á slíku. Eins og áður hefur verið tekið fram er handþvottur sérlega mikilvægur áður en brúðan er snert. Hafið í huga að “líkja eftir” öndunaraðstoð ( ekki snerta brúðuna með munninum ) þegar tveir einstaklingar eru að æfa endurlífgun og eiga að blása til skiptis í sömu brúðuna. Líkið eftir hreinsun öndunarvegar með fingrum ef verið er að æfa losun aðskotahlutar úr öndunarvegi, þegar tveir eru saman að æfa sig.

Áhugaverðar heimasíður með upplýsingum um smitvarnir, HABL (SARS) og fl.

http:// www.landlaeknir.is
http://www.cdc.gov/ncidod/sars/
http://www.who.int/csr/sars/en/
http://www.ccohs.ca/oshanswers/diseases/aids/manikins.html

Með kveðju,

Svanhildur Þengilsdóttir
deildarstjóri heilbrigðissviðs Rauða kross Íslands