Sálræn skyndihjálp fyrir unglinga

12. maí 2004

 Viðtal við Jóhann Thoroddsen sem birtist í félagsblaði kennara, Skólavörðunni í október 2003.

„Ef bara ég hefði vitað" er námsefni sem ætlað er nemendum í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskóla. Þemað er sálræn skyndihjálp og gert er ráð fyrir því að efnið sé kynnt þeim nemendum sem hafa áhuga á, og löngun til, að leggja slíkt fyrir sig og til að hvetja þá til að hafa samband við og styðja aðra í kringum sig.

Danski Rauði krossinn tók efnið saman og það fjallar um hvernig maður getur hjálpað sjálfum sér og öðrum þegar maður upplifir alvarlega atburði. Með alvarlegum atburðum er átt við t.d. skilnað, dauðsfall, umferðarslys, alvarlega ólæknandi sjúkdóma, þunglyndi, ástarsorg og einelti. Þetta efni er byggt upp á nokkrum sönnum frásögnum unglinga sem hafa upplifað erfiða atburði í lífinu. Allar frásagnirnar eiga það sameiginlegt að þær lýsa því hvernig tekist er á við vandann og sálræn einkenni, sem oft fylgja í kjölfarið. Til að geta hjálpað sjálfum sér eða annarri manneskju sem hefur upplifað alvarlega atburði er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því við hverju má búast.

Jóhann Thoroddsen sálfræðingur er verkefnisstjórni sálrænnar skyndihjálpar fyrir unglinga en ásamt honum hefur Ingibjörg Eggertsdóttir fræðslufulltrúi Rauða kross Íslands haft umsjón með verkefninu. „Ég hef kynnt þetta efni á fjórum haustþingum grunnskólakennara nú í haust, segir Jóhann," og fundið fyrir miklum áhuga. Efnið er annars vegar ætlað kennurum og hins vegar nemendum. Kennsluleiðbeiningar eru í vinnslu og koma innan tíðar, en þess má geta að efnið er bara birt á vefnum og þangað getur hver sem vill sótt það. Kennarar geta líka bent nemendum á efnið til lestrar þó svo að þeir séu ekki að kenna það.

Íslenskir kennarar standa daglega frammi fyrir erfiðum aðstæðum í lífi nemenda sinna; skilnuðum foreldra, fjárhagserfiðleikum, andlátum og svo framvegis. Ýmsir alvarlegir atburðir koma upp aftur og aftur og kennarar þurfa að vera vel vopnum búnir til að takast á við þá. Þeir þurfa til dæmis að átta sig á einkennunum en ef kennari þekkir nemanda sinn vel veit hann hvað er bara „gelgjustælar" og hvað ekki. Meðal vísbendinga um að eitthvað sé að er ef nemandinn fer að einangra sig, er óttasleginn, hrakar í námi, er með þráhyggjutal, reiður, kvartar undan maga- eða höfuðverkjum eða finnur fyrir vanmáttarkennd. Þetta sést yfirleitt best á hegðun, hún breytist og verður ef til vill ýktari."

Víða í skólum eru nú komnar áfallaaðgerðaáætlanir og Jóhann segir þær afar mikilvægar. „Ef nemandi deyr er nauðsynlegt að huga vel að samnemendum, vinna í samstarfi við presta, sálfræðinga og aðra sérfræðinga sem koma að harmleiknum, halda minningarathöfn og fleira. En kennarar þurfa líka að vera meðvitaðir um að þeir þurfa einhvers konar stuðning sjálfir. Það gleymist stundum að styðja þá sem eru að styðja og í áætluninni þarf líka að koma fram hvernig á að hjálpa hjálparanum. Stuðningur samstarfsmanna er mikilvægur og gott er að fá einhvern frá viðkomandi skólaskrifstofu til að fara í gegnum ferlið með sér. Sálrænn stuðningur er bara mannlegur stuðningur," segir Jóhann, „það þarf ekki að vera sálfræðingur til að gera þetta."

Jóhann hefur fjölbreytta reynslu af sálfræðistörfum og hefur m.a. unnið hjá Styrktarfélagi vangefinna, á fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi, SÁÁ og hjá Leikskólum Reykjavíkur auk starfsins hjá Rauða krossinum. Hann leiðir áfallateymi Rauða krossins ásamt því að vera verkefnisstjóri sálrænnar skyndihjálpar og er jafnframt með eigin sálfræðistofu. Áfengis- og vímuefnaneysla er oft upphafið að sálrænum erfiðleikum og áföllum og hjálpar a.m.k. ekki upp á ef erfiðleikar af öðrum toga eru til staðar. Jóhann leggur áherslu á að í starfi með börnum og unglingum þurfi markmið að vera raunhæf og nefnir dæmi um átakið Ísland án eiturlyfja, sem hann telur að sé ekki raunhæft markmið. „Við ættum frekar að einbeita okkur að átakinu „áfengislaus grunnskóli", segir Jóhann. „Við erum orðin svo hrædd við dóp að okkur finnst allt í lagi að krakkar drekki áfengi en raunin er að það er sterkt samhengi á milli áfengisneyslu á unga aldri og neyslu sterkari efna síðar meir. Við þurfum að styðja krakka til að geta staðið upp og sagt: „Ég ætla ekki að drekka." Þetta er erfitt en mjög mikilvægt og það þarf ekki alltaf svo mikið til að koma á breytingum."

Þess má að lokum geta að hjá RKÍ er til mikið magn ýmis konar fræðslu- og kennsluefnis fyrir nemendur allt frá efstu stigum leikskóla og upp í framhaldsskóla.

„Ef ég bara hefði vitað” er hluti af námsefni sem miðar að því að gera kennurum kleift að kynna mannúðarhugsjón Rauða krossins fyrir nemendum sínum. Markmiðin eru meðal annars að nemendur skoði hug sinn varðandi ýmis málefni, eins og til dæmis mannréttindi, samhjálp, ofbeldi og einelti, með það fyrir augum að þeir geti sett sig í spor annarra og gert sér grein fyrir sinni eigin persónulegu ábyrgð. Kennarar geta kynnt sér námsefnið – sem og “Ef ég bara hefði vitað” – á www.redcross.is/skoli.