Hvað áttu að gera þegar ÞÚ kemur að bílslysi ?

Svanhldur Þengilsdóttir

12. maí 2004

Er umhverfið öruggt! Er öruggt fyrir þig að veita slösuðum aðstoð? getur þú nálgast hinn slasaða á öruggan hátt? Ef þú slasar sjálfan þig þegar þú ert að veita aðstoð tvöfaldast vandamálið.

Gefðu öðrum ökumönnum merki um að slys hafi átt sér stað. Ef þú er með viðvörunarþríhyrning í bílnum þínum skaltu staðsetja hann í um 200 metra fjarlægð frá slysstað svo aðrir ökumenn sjái hann greinilega og geti hægt ferðina áður en þeir koma að slysstaðnum.

Þegar þú hefur tryggt að öruggt sé að veita aðstoð skaltu athuga ástand hins slasaða. Er hann með meðvitund? getur hann talað? getur hann andað? Jafnvel þó hann sé með meðvitund og geti andað er nauðsynlegt að láta heilbrigðismenntaða aðila skoða hann.

Hringdu í neyðarlínuna 112! eftir aðstoð, gefðu greinargóðar upplýsingar um aðstæður á vettvangi og ástand hins slasaða. Þú hefur hingað til gert allt rétt.; tryggt öryggi á slysstað, kannað ástand hins slasaða og hringt á hjálp. Ef til vill hugsarðu með þér að nú getir þú ekkert gert frekar, en það er ekki rétt !!

Þú getur verið hjá hinum slasaða og talað við hann. Spurðu um líðan hans. Á þessu augnabliki finnur hinn slasaði til vanmáttar og hjálparleysis og þarf svo sannarlega á stuðningi þínum að halda. Spurðu hvort það sé eitthvað sem þú getir gert frekar til þess bæta líðan hans.

Þú getur fylgst með breytingum á ástandi hins slasaða. Hvar finnur hann til, er sársaukinn að aukast eða minnka? Er erfiðara en áður að anda eða er öndunin hraðari? Allar þessar upplýsingar eru mikils virði fyrir sjúkraflutningamenn þegar þeir koma á slysstað.

Þegar sjúkraflutningamenn koma á slysstað taka þeir hinn slasaða í sína umsjá. Gefðu þeim allar þær upplýsingar sem þú hefur safnað, um núverandi ástand og breytingar sem hafa orðið á ástandi hins slasaða. Þú getur að því loknu gengið af vettvangi ánægður með þá aðstoð sem þú lagðir af mörkum; þú veittir mikilvæga aðstoð til einstaklings í neyð.

Ef þú vilt læra meira um það hvernig á að koma öðrum til hjálpar, öðlast frekari þekkingu og færni í skyndihjálp skaltu líta inn á heimasíðu Rauða kross Íslands, þar er að finna upplýsingar um fjölbreytt og áhugaverð námskeið í skyndihjálp og slysavörnum.