Skyndihjálp við bruna

1. des. 2004

Smábarn brennir sig á bakarofnshurð. Því bregður mjög og hágrætur. Þú sérð að lófar barnsins verða rauðir og það hefur augljóslega brennt sig. Hvernig bregst þú við?

Þú kælir brunasvæðið strax með köldu vatni úr krananum. Kælingin stöðvar frekari bruna og dregur úr skaðanum (kemur í veg fyrir blöðrumyndun). Hringdu í 112 og fáðu upplýsingar um hvað sé best að gera í framhaldinu. Hafðu í huga að það er mikilvægara að ljúka kælingu heima áður en farið er til læknis eða á slysadeild. Haltu því áfram að kæla í minnst hálftíma eða þar til sviði er horfinn. Vatnið úr krananum getur verið svo kalt að barnið þoli það ekki lengi og því skaltu eftir dálítinn tíma setja „þægilega kalt” vatn í skál og halda höndum barnsins ofan í því. Þægilega kalt vatn er ca 15 gráðu heitt.