Hvað er sálrænn stuðningur?

21. des. 2004

Sálrænn stuðningur er líkamleg og andleg aðhlynning við einstakling sem orðið hefur fyrir áfalli. Markmið hennar er að styðja einstaklinginn til fyrra jafnvægis og sjálfstæðis og fyrirbyggja alvarleg, langvinn sálræn eftirköst hjá viðkomandi. Grundvallaratriði sálræns stuðnings er nálægð, hlýja, umhyggja og hæfileiki til að hlusta.

Sálrænn stuðningur er milliliða- og tafarlaus.

Fyrstu viðbrögðin koma fram strax eftir að einstaklingur hefur upplifað alvarlegan atburð. Þetta getur verið spenna, doði, tómleiki, brenglað tímaskyn og óraunveruleikatilfinning. Það er í þessum aðstæðum sem viðkomandi einstaklingur þarf á sálrænum stuðningi að halda. Best er ef hún er veitt af þeim sem standa viðkomandi næst, s.s. fjölskyldu eða vinum.

Sálrænn stuðningur er hluti áfallahjálpar. Aðrir hlutar áfallahjálpar eru sérhæfð stuðningsviðtöl sem veitt eru nokkrum dögum eftir atburðinn og eins eftirfylgni með tilliti til mats á þörf fyrir frekari meðferð.

Rauði kross Íslands hefur beitt sér fyrir því að þekking á sálrænum stuðningi verði útbreidd á Íslandi. Í samræmi við grundvallarmarkmið Rauða krossins leitast félagið við að koma öllum til hjálpar sem á þurfa að halda og fer ekki í manngreinarálit.

Hvað er áfall?

Áfall er viðbrögð einstaklings við atburði sem veldur honum svo miklu álagi að venjuleg bjargráð hans duga ekki til og hann verður að leita sér aðstoðar. Meðal erfiðustu áfalla eru þau sem koma í kjölfar óvæntra, tilviljanakenndra atburða sem eru án nokkurs skiljanlegs tilgangs.

Hvað getur valdið áfalli?

Viðbrögð fólks eru einstaklingsbundin og því bregðast ekki allir eins við sama atburði. Meðal atburða sem geta valdið áfalli eru:

• Missir ættingja eða vina
• Bílslys
• Kynferðisleg árás
• Rán
• Alvarleg meiðsl
• Alvarlegur sjúkdómur
• Gjaldþrot
• Missir á fyrri getu, til dæmis líkamlegri
• Að verða valdur að alvarlegu slysi eða tjóni
• Að verða vitni að ógnvekjandi eða voveiflegum atburði.

Áfallaviðbrögð

Líkamleg og tilfinningaleg viðbrögð við alvarlegum atburðum líkjast viðbrögðum við erfiðleikum í daglegu lífi. Þessi viðbrögð eru þó yfirleitt sterkari og þau eru einstaklingsbundin. Algengt er að einstaklingur, sem upplifir alvarlegan atburð, finni fyrir einhverjum eða öllum neðangreindra einkenna:

• Líkamleg einkenni – skjálfti, hraður hjartsláttur, höfuðverkur, magaverkur, ógleði, uppköst, svimi, sviti og öndunarerfiðleikar.
• Tilfinningaleg einkenni – Grátur, hlátur, reiði, óraunveruleikatilfinning, kvíði, hræðsla, doði, áhyggjur af því að missa stjórn á aðstæðum, tómleikatilfinning, finnast maður vera yfirgefinn og einangraður, ótti um líf sinna nánustu og framtíðina, hræðsla við endurtekningu atburðar sem ollu áfallinu.
• Breytingar á hegðun – Eirðarleysi, ofvirkni, pirringur, taugaveiklun, deyfð og skortur á frumkvæði.
• Einkenni eins og vöðvaspenna, svefntruflanir, andstæðar tilfinningar, sektarkennd, ótti, viðkvæmni og varnarstaða eru oft til staðar í lengri tíma eftir áfall.

Viðbrögð barna

Viðbrögð barna við alvarlegum atburðum eru um margt hliðstæð viðbrögðum fullorðinna. Viðbrögðin eru þó háð vitsmunaþroska barnsins hverju sinni. Sem dæmi um viðbrögð 5 ára barns má nefna, að barnið getur átt það til að hágráta í fimm mínútur og fara svo allt í einu að leika sér eins og ekkert hafi í skorist.

Mögulegar leiðir til að veita sálrænan stuðning:
• Tryggja andlegt og líkamlegt öryggi.
• Sýna ró og stillingu í athöfnum og orði.
• Skapa örugga umgjörð, verja fólk fyrir utanaðkomandi áreiti.
• Huga að frumþörfum; fæði, klæði og skjóli.
• Sýna virðingu þó hegðun og viðbrögð séu framandi.
• Vera nálægur og gefa til kynna að þú hafir nægan tíma.
• Hlusta og vera reiðubúin(n) til að taka á móti tilfinningum.
• Sýna umhyggju og hlýju.

Það er mikilvægt fyrir þá sem verða fyrir áföllum að þiggja hjálp og leita hennar ef þörf er á. Jafnframt er mikilvægt að við veitum stuðninginn þar sem hans er þörf og að sem flestir kunni nokkuð til verka. Ávallt skal hafa í huga að einstaklingar eru mismunandi, hvað varðar viðbrögð og þarfir í kjölfar áfalls.