Mörgum verður hált á svellinu

11. feb. 2005

Beinbrot eru algeng á veturna vegna hálku og hálkubletta á gangstéttum, ekki síst þar sem snjónum er gjarnan rutt af götunum. Þá er gott að geta brugðist rétt og hratt við til þess að óþægindin verði þeim mun minni.

Erfitt getur verið að sjá hvort beinið er brotið. Ef þú ert í vafa skaltu bera þig að eins og beinið sé brotið.

Helstu einkenni beinbrots eru:
Bólga.
Opið sár.
Verkir.
Aflögun.
Skert hreyfigeta.
Skraphljóð þegar brotnir beinhlutar nuddast saman.

Beinbrot merkir brot eða sprungu í beini og skiptast í tvo flokka:
Lokað brot er það þegar húðin er heil og engin sár nærri brotstaðnum.
Opið brot er það þegar húðin hefur skaddast eða rofnað. Því gæti hafa valdið beinendi sem rekist hefur út í gegnum húðina eða högg sem á hana hefur komið samtímis því að beinið brotnaði. Ekki sést alltaf í beinið í sárinu.

Skyndihjálp:
Stöðvaðu blæðingu.
Skorðaðu brotið vel með spelku ef nauðsynlegt er að hreyfa viðkomandi.
Athugaðu að spelka ekki of fast þannig að blóðflæði stöðvist.