Æfingar í skyndihjálp búa ástralska sjálfboðaliða undir það versta

Peter Havdon

11. maí 2005

Frá æfingunni í Greater Bendigo í síðasta mánuði.
Geater Bendigo er um 100 þúsund manna sveitaþorp staðsett í skóglendi í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Melbourne. Íbúar þorpsins hafa fengið sinn skerf af náttúruhamförum á borð við flóð og skógarelda og kunna að bregðast við þeim á marksvíslegan hátt. Rauða kross deildin á svæðinu hefur lagt sitt af mörkum við að undirbúa þorpsbúa fyrir hamfarir og hefur deildin m.a. haldið æfingar til að þjálfa sjálfboðaliðana fyrir slíkar hamfarir. Á æfingunum eru búnar til aðstæður sem geta skapast þegar hamfarir eiga sér stað.

Ein slík æfing átti sér einmitt stað um miðjan apríl. Um 30 háskólanemar þóttust vera fórnarlömb sprengingar á skólalóð og gátu sjálfboðaliðar Rauða krossins þá þjálfað sig í því sem þeir hafa lært. Sumir áttu að þykjast látnir en aðrir að leika illa slösuð fórnarlömb ,með  t.d. hryggáverka, brunasár eða beinbrot. Reynt var að láta aðstæður vera eins raunverulegar og hægt var.

Tilgangur æfingarinnar var fyrst og fremst að kenna sjálfboðaliðunum að forgangsraða slösuðum í stórslysi.

Æfingin fór þannig fram að fjórar bifreiðar frá Rauða krossinum með 23 þjálfuðum sjálfboðaliðum mættu á staðinn. Það blasti við þeim algjör ringulreið, fólkið lá eins og hráviði um allt svæðið. Sjálfboðaliðarnir byrjuðu að kanna aðstæður fólksins og finna þá sem slasaðir voru. „Fórnarlömbin” tiltóku hvar sársaukinn var mestur rétt eins og sprengingin hefði raunverulega átt sér stað og þóttu þau standa sig einstaklega vel.

Æfing sem þessi er mjög krefjandi því að eftir að hinir slösuðu höfðu fundist þurfti að sjá hverjir væru mest slasaðir, finna út hvernig öruggast væri að flytja þá á brott og koma þeim síðan hratt og örugglega í sjúkrabíl. Unnið var undir mikilli pressu þar sem sjálfboðaliðarnir þurftu ekki aðeins að hugsa um öryggi hinna slösuðu, heldur einnig sitt eigið.

Í þessu þorpi stendur til að halda svona æfingu árlega. Það er mikil áskorun fyrir sjálfboðaliða að taka þátt í æfingunum, þetta þjálfar þá og gerir þá hæfari til að takast á við afleiðingar hamfara.

Þess má geta að um 100 þúsund manns fara á skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum í Ástralíu á hverju ári.