Skyndihjálp hjálpar þeim sem minna mega sín

10. sep. 2005

Verið að sýna rétt viðbrögð í skyndihjálp á alþjóðlega skyndihjálpardeginum sem haldinn var hátíðlegur í Smáralindinni í fyrra.
Skyndihjálp snýst ekki aðeins um að bjarga mannslífum. Hún getur einnig gegnt lykilhlutverki í að hjálpa þeim sem minna mega sín í samfélagi til að komast aftur á réttan kjöl. Alþjóða Rauði krossinn leggur áherslu á þetta í dag á alþjóðlega skyndihjálpardeginum.

„Að læra að hjálpa öðrum er góð leið til að breyta viðhorfinu til sjálfs sín og samfélagsins. Skyndihjálp eykur samheldni milli fólks og hvetur það til að tala saman, styðja hvort annað og bæta hegðun sína,“ segir Markku Niskala framkvæmdastjóri Rauða krossins.

Margsannað er að skyndihjálp bjargar ekki aðeins mannslífum og kemur í veg fyrir meiðsl heldur styrkir hún samfélög með því að auka sjálfsöryggi og hjálpar þeim að hjálpa sér sjálfum. Sem dæmi um hópa sem hafa fengið aðstoð á þennan hátt eru heilsuveilir einstaklingar, sprautufíklar, ungt fólk í fátækrahverfum, heimilislausir, flóttamenn, aldraðir, götubörn, fangar o.fl. Til að undirstrika hversu vel skyndihjálparnámskeið virka má nefna að fólk úr þessum hópum hefur sjálft farið að kenna skyndihjálp.

Í Bretlandi eru sjálfboðaliðar Rauða krossins þjálfaðir til að veita skyndihjálp og kenna heilbrigðan lífsstíl í samfélagi fólks frá Bangladesh í London. Algeng dánarorsök í þessum hópi eru hjartasjúkdómar. Í Zimbabwe er skyndihjálp mikilvægur hluti af kennslu í heimilishjálp sem Rauði krossinn er með fyrir eyðnisjúklinga og fjölskyldur þeirra. Í Frakklandi og Papúa Nýju Gíneu er unnið með ungu fólki sem er atvinnulaust eða býr í fátækum hverfum. Skyndihjálpin eykur hæfni þeirra til að bjarga mannslífum og við það eykst sjálfstraustið.  

Síðan árið 2000 hafa sífellt fleiri landsfélög Rauða krossins haldið upp á alþjóðlega skyndihjálpardaginn annan sunnudag í september. Yfir 100 landsfélög munu taka þátt á þessu ári.

Nú hefur Rauði kross Íslands hinsvegar ákveðið að taka þátt í svokölluðum  1-1-2 degi í stað skyndihjálpardags með það að markmiði að kynna hlutverk Rauða krossins í neyðarvörnum og skyndihjálp. 1-1-2 dagurinn er haldinn þann 11. 2. ár hvert. Ýmis félög og stofnanir sem koma að neyðarvörnum kynna starfsemi sína þann dag.