112-dagurinn í hávegum hafður víða um land

11. feb. 2014

Deildir Rauða krossins víða um land halda merki 112-dagsins á lofti í dag 11. febrúar, og kynna skyndihjálp og starfsemi Rauða krossins á fjölförnum svæðum.
Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Norðfirði eru með kynningu í Samkaupum á nýju skyndihjálparappi Rauða krossins og ætla að kenna fólki að hala því niður og hvernig hægt er að nota það. Einnig verða þeir með sjálfvirkt hjartastuðtæki á staðnum, og ætla að sýna rétt handbrögð í endurlífgun.

Rauði krossinn á Akranesi ætlar að standa vaktina í Bónushúsi frá kl. 16-18, og kynna skyndihjálparappið og námskeið deildarinnar í skyndihjálp. Einnig verður opið hús í Björgunarsveitarhúsinu að Kalmansvöllum 2 frá kl. 16. þar sem viðbragðsaðilar kynna starfsemi sína.

Í Breiðdal verða Rauði krossinn og björgunarsveitin með opið hús í Nesbúð þar sem skyndihjálp er þema dagsins. Skyndihjálparappið verður kynnit og búnaður deildanna er til sýnis. 

Á Blönduósi munu viðbragðsaðilar aka um bæinn og sýna búnað sinn. Staðnæmst verður við Samkaup kl. 16 þar sem fólki gefst tækifæri til að skoða bílaflotann. Einnig verður skyndihjálparapp Rauða krossins kynnt, og fólki gefst tækifæri að spreyta sig í upprifjun á skyndihjálp með því að hnoða og blása í dúkkur.

Á Ísafirði heiðraði Rauði krossinn tvo einstaklinga sem með snarræði og þekkingu sinni í skyndihjálp björguðu nágranna sínum í janúar fyrir ári þar sem hann hneig niður við snjómokstur og fór í hjartastopp.

112-dagurinn er haldinn um allt land 11. febrúar. Hann er einnig haldinn víða um Evrópu en 112 er samræmt neyðarnúmer í Evrópu. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Að þessu sinni er áhersla lögð á að auka öryggi í ferðum fólks að vetrarlagi, hvort sem er á vegum eða utan alfaraleiða.