Hárrétt viðbrögð forða lömun

13. feb. 2014

Páll Kristinsson hefur náð ótrúlegum bata eftir alvarlegt slys í maí í fyrra. Páll á bata sinn að þakka tengdasyninum Heiðari Arnfinnssyni, en óhætt er að segja að hárrétt viðbrögð hans á slysstað hafi forðað Páli frá lömun.

Tengdafeðgarnir voru við smíðavinnu við sumarbústað við Meðalfellsvatn í Hvalfirðinum. Páll féll niður af annarri hæð sumarhússins og lenti beint a höfðinu á steinsteypt gólf. Heiðar kom strax að þar sem Páll lá á gólfinu, og hélt honum kyrrum ef hann skyldi hafa hryggbrotnað. Einnig hélt Heiðar höfuðleðrinu saman sem hafði sprungið frá enni aftur á hnakka og blæddi mikið og notaði til þess handklæði sem var við höndina.

Páll var með meðvitund allan tímann og vildi hreyfa sig því hann fann svo til og náði illa andanum, en Heiðar passaði að hann yrði alveg kyrr og talaði við hann og reyndi að róa hann. Heiðar var allan tímann hræddur um að missa Pál en tókst að halda ró sinni og sefa hann í leiðinni.

Þetta var gífurlega erfitt verkefni því sjúkrabíllinn kom ekki á staðinn fyrr en eftir 40 mínútur. Á sjúkrahúsinu kom í ljós að fjórir hryggjarliðir hefðu brotnað, hann var hálsbrotinn, bringubeinsbrotinn, og handleggsbrotinn, með svöðusár á höfði og lungun höfðu fallið saman. Hann þurfti að fara í stóra aðgerð til þess að laga hrygg- og hálsbrotin og litlu munaði að mjög illa hefði farið og hann lamast.

Það er mat lækna að ef Páll hefði hreyft sig eftir slysið væri alls ekki víst að hann hefði sloppið svo vel, eða hreinlega lifað af. Í dag er hann enn í sjúkraþjálfun og gengur vel.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er Heiðari að þakka og skyndihjálparkunnáttu hans að ég er á lífi og ekki lamaður,“ segir Páll.

Heiðar er sjómaður og hefur lært skyndihjálp hjá slysavarnaskóla sjómanna á 5 ára fresti og líka í Vélskólanum. Það kom honum sjálfum á óvart hvað hann náði að halda ró sinni við þessar erfiðu aðstæður í þetta langan tíma.

Páll á gjörgæsludeildinni eftir slysið.