Hélt að óður hundur hefði bitið nágrannann á háls

11. feb. 2014

Rauði krossinn á Ísafirði hélt 112-daginn hátíðlegan með því að heiðra þá Heimi G. Hansson og Sveinbjörn Björnsson, sem með snarræði og þekkingu í skyndihjálp björguðu nágranna sínum Hermanni Hákonarsyni fyrir ári, þar sem hann hneig niður við snjómokstur og fór í hjartastopp.

Hermann var að moka snjó heima hjá tengdapabba sínum í janúar í fyrra, og féll allt í einu niður og fékk hjartastopp. Heimir og Sveinbjörn eiga heima á móti húsinu og heyrðu í konunni hans Hermanns og hlupu út og blésu og hnoðuðu Hermann þar til sjúkrabíll kom á vettvang.

Heimir lýsir atvikinu á þessa leið: „Þetta gerðist á sunnudegi í janúarlok og ég man að ég sat heima í mestu makindum að horfa á skíðagöngumót í sjónvarpinu þegar Dagný, konan mín, kallaði á mig úr forstofunni og sagði mér að drífa mig fram. Þegar hún skipar mér fyrir gegni ég auðvitað alltaf strax, en í þetta sinn var ég óvenju snöggur því ég heyrði á röddinni að þetta var eitthvað verulega alvarlegt. Ég rauk fram í forstofu og þar var þá komin hún Veiga, nágranna kona okkar (Sigurveig Gunnarsdóttir) að biðja um hjálp.

Maðurinn hennar, Hemmi Hákonar (Hermann Hákonarson), hafði verið að moka snjó frá garðshliðinu við húsið handan götunnar þegar hann skyndilega hneig niður. Ég held að ég gleymi aldrei sjóninni sem blasti við þegar ég leit út um dyrnar. Hemmi lá í snjónum og hundur þeirra hjóna stóð með snoppuna í hálsakotinu á honum. Það fyrsta sem mér datt í hug var að hundurinn hefði hreinlega bitið Hemma í hálsinn og ég man að ég hugsaði með mér „hvernig í andsk... á ég að fara að því að glíma við óðan hund?“

Á sama augnabliki áttaði ég mig þó því að þarna var eitthvað allt annað í gangi. Það var eitthvað svo mikil kyrrð yfir þessari mynd, hundurinn líka fjarri því að vera óður, heldur greinilega áhyggjufullur út af húsbónda sínum. Ég hljóp yfir götuna og um leið og ég sá andlitið á Hemma hugsaði ég með mér að hann væri dáinn. Það hafa örugglega ekki liðið margar sekúndur frá því að hann hneig niður þangað til ég var kominn út, en samt var þessi venjulega kaffibrúni maður orðinn algerlega grár og líflaus í framan.

Sem betur fer hafði ég tvisvar sinnum farið á skyndihjálparnámskeið og þótt rúmlega tvö ár væru liðin frá síðara námskeiðinu þá rann námsefnið einhvern veginn allt í gegnum hausinn á mér þarna úti í snjónum. Ég man að Hemmi lá þannig að það var erfitt að komast almennilega að honum til að framkvæma lífgunartilraunir..Í minningunni gerðist það svo allt í einni hreyfingu að ég hagræddi honum eins og hægt var, renndi frá honum úlpunni, athugaði hvort brjóstkassinn bifaðist og lagði eyrað að munninum á honum til að hlusta eftir andardrætti. Það var ekkert lífsmark að finna og þá byrjaði ég bara aðgerðir, blés tvisvar sinnum í hann og hóf svo hjartahnoð. Það brakaði og brast í brjóstkassanum á honum þegar ég byrjaði en mér hafði verið sagt að það væri eðlilegt. Útundan mér heyrði ég að Dagný var að tala við Neyðarlínuna og útskýra fyrir þeim stöðu mála.

Það kom mér á óvart hvað maður var rólegur yfir þessu öllu saman. Á skyndihjálparnámskeiðunum hafði vissulega verið talað um mikilvægi þess að geta sett sig í ákveðna „fjarlægð“ þegar svona kemur upp - sem sagt að hugsa skýrt og taka þetta ekki inn á sig. Og á þessari stundu var þessi maður allt í einu ekki lengur Hemmi nágranni minn, maðurinn sem ég hafði þekkt síðan ég byrjaði sem krakki að kaupa af honum skíðaáburð í Sporthlöðunni. Þetta var einhvern veginn bara skrokkur sem þurfti að hnoða.

Ég hafði lært það að venjulega geti maður hnoðað vel í um tvær mínútur, en eftir það sé hætt við að hnoðið verði ekki nógu djúpt. Það vildi svo til að tengdapabbi minn, Sveinbjörn Björnsson, var nýkominn í heimsókn til okkar - hann hafði reyndar stoppað og spjallað við Hemma þarna fyrir utan bara fáeinum mínútum áður en þetta gerðist allt saman. Hann tók við af mér og hnoðaði þar til Úlfur Gunnarsson læknir kom og tók við.

Mér skilst að Úlfur hafi verið heima hjá sér á bakvakt þegar hann fékk boð frá Neyðarlínunni og var alveg öskufljótur á staðinn. Rétt í kjölfarið á honum kom svo sjúkrabíllinn. Ég má til með að nefna alveg ótrúlegan viðbragðstíma sjúkraflutningamannanna. Eins og ég sagði áðan var þetta á sunnudegi og þá eru þeir ekki á vakt á stöðinni, heldur ganga bara með neyðarsíma á sér.

Gamall félagi minn og skólabróðir, Hermann Hermannsson, var á bakvaktinni þennan dag og það liðu innan við fimm mínútur frá því að hann fékk boð frá Neyðarlínunni þangað til hann var kominn á staðinn og búinn að gefa rafstuð. Samt þurfti hann að keyra heiman frá sér, niður á slökkvistöð að sækja sjúkrabílinn og svo uppeftir í götuna til okkar. Þótt auðvitað finnist fólki það vera heil eilífð að bíða í fjórar til fimm mínútur eftir sjúkrabíl þegar svona stendur á, þá sýnir þessi viðbragðstími að við eigum alveg svakalega gott sjúkraflutningafólk.

Ég held, að úr því að þetta þurfti að gerast á annað borð þá hafi aðstæður og viðbrögð verið eins og best er hægt að hugsa sér. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa drifið mig á skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum, því þótt þetta sé kunnátta sem maður í raun vonar að maður þurfi aldrei að beita, þá held ég að það sé hræðilegt að lenda í svona aðstöðu og vita ekki hvernig á að bregðast við.“

Heimir fór fyrst á skyndihjálparnámskeið eftir að hafa komið að alvarlegum atburði uppi á fjöllum. Einn úr fjallgönguhóp hafði þá farið í hjartastopp og þurft endurlífgun. Eftir það hugsaði Heimir hvort hann gæti brugðist við svona tilfelli ef einhver úr hans gönguhópi myndi veikjast. Heimi fannst mikill munur að þurfa ekki að standa í aðgerðum einn og hafa Sveinbjörn og annað fólk til aðstoðar.

Hermann fékk svo bjargráð í framhaldinu.