Með taktinum hundrað hnoð á mínútu

11. apr. 2014

Rauði krossinn hefur ráðist í útgáfu á sérstöku skyndihjálparlagi sem er í senn ætlað að vekja athygli á nauðsyn þess að kunna skyndihjálp og auðvelda fólki að finna rétta taktinn þegar beita þarf endurlífgun. Myndband fylgir laginu þar sem hinn seinheppni Klaufi lendir í ýmsum hremmingum en á líf sitt að launa skyndihjálp og skjótum viðbrögðum samferðamanna sinna.   

Skyndihjálparlagið er einn liður í skyndihjálparátaki félagsins í tilefni af 90 ára afmæli þess í lok árs 2014. Lagahöfundur er Snæbjörn Ragnarsson en textinn er eftir Sævar Sigurgeirsson.  Þess var gætt sérstaklega að takturinn í laginu hentaði við endurlífgun sem kallar á um það bil 100 hnoð á mínútu.  https://dl.dropboxusercontent.com/u/65793/RKfinalfinalmlogo.mp4

Tíu þekktir söngvarar og leikarar flytja lagið í sjálfboðavinnu en það eru þau Gunnar Helgason, Saga Garðarsdóttir, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Felix Bergsson, Agnes Björt Andradóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Ragnhildur Gísladóttir og Vilhelm Anton Jónsson.

Myndbandið er unnið af Rauða krossinum og höfðu  þær Þórunn Lárusdóttir og Gunnhildur Sveinsdóttir umsjón með gerð þess. Erla María Árnadóttir myndskreytir gerði teikningarnar og tjarnargatan.is kvikaði.

Markmiðið með skyndihjálparátaki Rauða krossins á afmælisárinu er að byggja upp kunnáttu og færni almennings í skyndihjálp og auka þannig líkur á að fólk hafi grunnþekkingu á því hvernig hægt sé að bjarga mannslífi á neyðarstundu. Rauði krossinn mun standa að kynningarherferð út árið sem afmælisgjöf félagsins til þjóðarinnar þar sem áhersla verður lögð á að kenna fólki að beita endurlífgun, losa aðskotahlut úr hálsi, bregðast við bruna og blæðingu.

Í upphafi árs kynnti Rauði krossinn ókeypis skyndihjálparapp þar sem má nálgast allar helstu upplýsingar um skyndihjálp settar fram á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Alls hafa 25.000 manns sótt sér appið en Rauði krossinn bindur miklar vonir við að sem flestir landsmenn keppist við að setja appið inn á síma sína eða spjaldtölvur á afmælisárinu. 

Síminn styður útgáfu skyndihjálparappsins, og rétt er að ítreka að niðurhalning er ókeypis. Hægt er að ná í appið og skoða teiknimyndina á vefsíðunni skyndihjalp.is.