Allir læri skyndihjálp með appi Rauða krossins

11. feb. 2014

Rauði krossinn á Íslandi hefur hrundið af stað heljarmiklu skyndihjálparátaki sem mun standa yfir í heilt ár til að fagna 90 ára afmæli félagsins, en skyndihjálpin er einmitt elsta og þekktasta verkefni Rauða krossins. Markmið átaksins er að byggja upp kunnáttu og færni almennings í að beita skyndihjálp á ögurstundu.
 
„Rauði krossinn vonast til að kynningarherferð félagsins miðli þekkingu sem situr eftir með þjóðinni, og auki þannig líkur á að fólk kunni að bregðast við neyðarstundu og geti bjargað mannslífi þegar mikið liggur við,“ segir Gunnhildur Sveinsdóttir verkefnisstjóri Rauða krossins í skyndihjálp. „Við viljum gjarna líta svo á að þetta sé gjöf okkar til þjóðarinnar á afmælisárinu þar sem áhersla verður lögð á að kenna fólki að beita endurlífgun, losa aðskotahlut úr hálsi, bregðast við bruna og blæðingu.“

Fyrsti liðurinn í skyndihjálparherferð Rauða krossins er útgáfa á skyndihjálparappi sem systurfélög Rauða krossins Bretlandi og Bandaríkjunum hafa hannað.  Skyndihjálparapp Rauða krossins hefur fengið frábærar viðtökur síðan það fór í loftið fyrir tveimur mánuðum, og þegar hefur verið slegið met í niðurhali á því. Alls hafa nú um 14.000 manns sótt forritið, en það er rúmlega 4% þjóðarinnar. Til viðmiðunar má geta þess að um 1% Bandaríkjamanna hefur sótt appið á síðu ameríska Rauða krossins á heilu ári.

„En við stefnum hátt og höfum miklar væntingar um að allir sem eiga snjallsíma og spjaldtölvu á Íslandi hali niður appinu, og að litið verði á þetta sem sjálfsagðan staðalbúnað ,“ segir Gunnhildur.  

Hægt er að nálgast appið á vefsíðu Rauða krossins skyndihjalp.is  og er það ókeypis. Í appinu má nálgast allar helstu upplýsingar um skyndihjálp settar fram á afar aðgengilegan hátt, en þess er um fram allt gætt að hafa það skemmtilegt. Þar er hægt að fræðast um skyndihjálp, prófa þekkingu sína í fræðunum á gagnvirkan hátt og horfa á myndbönd.  Ef um neyðarástand er að ræða er hægt að ná beinu símasambandi við Neyðarlínuna 112.

Ólíkt flestum öðrum smáforritum er appinu ætlað að gera notendur þess hæfari til að bjarga mannslífum á örlagastundu. Þetta er gert bæði með fræðslu og svo einföldum leiðbeiningum um hvernig fólk eigi að bregðast við og beita skyndihjálp ef fólk veikist skyndilega eða slys ber að höndum.

Rauða krossinum hefur þegar borist margar ábendingar frá fólki sem hafa notað appið til að veita rétta aðhlynningu eftir slys, og koma slösuðum undir læknishendur. Þess má einnig geta að í appinu er sérstakur kafli um hvernig bregðast eigi við ýmsum náttúrhamförum og ofsaveðri.

„Appið er einstaklega handhægt og það er upplagt að nýta annars dauðan tíma meðan beðið er í röð í búðum, setið í strætó, eða í kaffitímanum og frímínútum, til að kíkja á það, læra, og rifja upp skyndihjálpina,“ segir Gunnhildur.

Síminn styður útgáfu skyndihjálparappsins, og rétt er að ítreka að niðurhalning er ókeypis