Rauði krossinn vekur athygli á Alþjóðlegum degi skyndihjálpar, 13. september

15. sep. 2014

Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans standa að deginum með það að markmiði að styrkja vitund einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga um mikilvægi skyndihjálparkunnáttu. Rauði krossinn hefur verið leiðandi á heimsvísu við kennslu skyndihjálpar.

Í ár hefst langtímaátak Alþjóðasambandsins sem nær til ársins 2020, First Aid Global Initiative 2014-2020. Vonast er til að árið 2020 verði búið að þjálfa 200 milljón manns á heimsvísu sem geta beitt skyndihjálp í neyð. Árið 2012 er talið að Rauði krossinn hafi þegar þjálfað 14 milljón manns í beitingu skyndihjálpar.

Á Íslandi stendur Rauði krossinn fyrir öflugri starfsemi í skyndihjálparkennslu og hefur verið í farabroddi frá stofnun félagsins, sem á 90 ára afmæli í ár.

Afmælisár Rauða krossins á Íslandi er einmitt tileinkað skyndihjálp, einu elsta og mikilvægasta verkefni félagsins.

Í ár hefur Rauði krossinn hér á landi látið framleiða ýmis konar efni sem er til þess fallið að kynna þjóðinni rétt handtök ef skyndileg veikindi eða slys koma upp. Þar sem skyndihjálpin er víðfeðm og flókin var ákveðið að leggja áherslu á fjóra mikilvæga þætti hennar í átakinu; hvernig bregðast á rétt við bruna, blæðingu, aðskotahlut í hálsi og hvernig veita á endurlífgun.

Allt efnið sem framleitt hefur verið á afmælisárinu má finna á skyndihjalp.is og eru landsmenn hvattir til þess að kynna sér skyndihjálp með því að heimsækja síðuna, skoða efnið og skrá sig á námskeið. Á vefnum er meðal annars að finna skyndihjálparappið, Skyndihjálparlagið með meðfylgjandi teiknimynd, upplýsingar um skyndihjálp, próf til þess að kanna stöðu í skyndihjálparkunnáttu og fjórar leiknar stuttmyndir, sem skarta nokkrum af fremstu leikurum þjóðarinnar.

Rauði krossinn hvetur landsmenn til þess að læra skyndihjálp svo þeir geti aðstoðað og jafnvel bjargað einstaklingi í neyð. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á tafarlausri hjálp að halda vegna slyss eða skyndilegra veikinda.