Leiðbeinendanámskeið í sálrænum stuðningi

10. mar. 2006

Útskrifaðir leiðbeinendur í sálrænum stuðningi ásamt Jóhanni og Elínu.

Dagana 1. - 5. mars stóð Rauði kross Íslands fyrir námskeiði fyrir verðandi leiðbeinendur í sálrænum stuðningi. Skilyrði fyrir þátttöku var fagmenntun á sviði heilbrigðis, sálfræði, félags og uppeldis og reynsla umsækjenda af áfallavinnu.

Alls voru nítján þátttakendur sem komu víðsvegar að af landinu. Það hefur verið skortur á leiðbeinendum í flestum landshlutum og námskeiðinu var ætlað að bæta úr þeim skorti. Mikill meiri hluti þátttakenda voru hjúkrunarfræðingar en einnig voru félagsráðgjafar, sálfræðingur, prestur og kennari. 

Markmið námskeiðsins er að:
1. fjölga leiðbeinendum í sálrænum stuðningi
2. dýpka þekkingu og skilning þátttakenda á eðli áfalla og viðbrögðum einstaklinga við þeim
3. þátttakendur öðlist þekkingu á undirstöðuatriðum kennslufræðinnar og þjálfun í að beita henni á námskeiðum sem þeir koma til með að halda

Námskeiðið var 45 kennslustundir að lengd og 10 fyrirlesarar fluttu erindi. Kennslan byggði á fyrirlestrum, hópvinnu, umræðum og kennsluæfingum. Stjórnendur námskeiðsins voru Jóhann Thoroddsen verkefnisstjóri sálræns stuðnings og Elín Jónasdóttir sálfræðingur og leiðbeinandi í sálrænum stuðningi.

Námskeiðinu lauk með prófi og kennsluæfingu. Í kjölfar námskeiðsins mun hver leiðbeinandi halda eitt 4 ? 8 klst. námskeið í sjálfboðavinnu og að því loknu öðlast leiðbeinendaréttindi í sálrænum stuðningi.

Í lokin afhenti Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða krossins þátttakendum viðurkenningarskjal og bauð upp á kaffi og kökur.

Hægt er að fá upplýsingar um námskeið í skyndihjálp á Landsskrifstofu Rauða krossins í síma 570 4000 og í tölvupósti á gulla@redcross.is.