Framhaldsnámskeið um sálrænan stuðning

23. nóv. 2006

Fullt var út úr dyrum á framhaldsnámskeiði um sálrænan stuðning sem haldið var á Ísafirði fyrir fjöldahjálparstjóra Rauða kross deildanna á Vestfjörðum dagana 17. og 18. nóvember. Námskeiðið sem var haldið á vegum deilda á Vestfjörðum stóð yfir í átta klukkustundir. Einnig var boðið fagfólki sem kemur að málefnum er lúta að mannlegum stuðningi úr félagsþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni og málefnum fatlaðra.

Á námskeiðinu var fjallað m.a. um áhrif alvarlegra atburða á fólk, hvernig það tekst á við slíka atburði og hvaða stuðningur kemur því best. Þá var fjallað um svokallaða viðrun viðbragðshópa, sem eru stuttir fundir í lok útkalls.

Námskeiðið byggði á fyrirlestrum og verklegum æfingum. Settar voru á svið mismunandi aðstæður sem þátttakendur voru látnir spreyta sig á að leysa. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Jóhann Thoroddsen, verkefnisstjóri sálræns stuðnings hjá Rauða krossinum og Margrét Blöndal, hjúkrunarfræðingur og leiðbeinandi hjá Rauða krossi Íslands.

Einn af sjálfboðaliðum Rauða krossins sem sat námskeiðið sagðist vera mjög ánægður að hafa fengið tækifæri til að fræðast um mikilvægi þess að vera til staðar þegar á reynir og fá leiðbeiningar um hvernig hægt er að greina ástand fólks sem upplifað hefur alvarlega atburði. Hann sagði einnig að námskeiðið muni eflaust nýtast sjálfboðaliðum í starfi fyrir félagið en ekki síst í einkalífinu því fáir komast hjá því að mæta erfiðleikum í lífinu eða þekkja einhvern sem á um sárt að binda.