Námskeið í sálrænum stuðningi á Akranesi

16. apr. 2007

Námskeið í sálrænum stuðningi var haldið á Akranesi síðastliðinn laugardag. Námskeiðið var sérstaklega ætlað fjöldahjálparstjórum á Vesturlandi sem vilja auka styrk sinn í starfi en allir áhugasamir voru velkomnir. Námskeiðið var fjögurra klukkustunda langt. Leiðbeinandi var Jón Jóhannsson djákni..

Þátttakendur komu vítt og breitt að. Auk Rauða kross fólks sátu námskeiðið meðal annars aðilar frá leikskólum og stóriðjufyrirtækjum.

Fjallað var meðal annars um áhrif alvarlegra atburða á fólk, hvernig það tekst á við slíka atburði og hvaða stuðningur kemur því best. Þá var fjallað um svokallaða viðrun viðbragðshópa og annarra en það eru stuttir fundir eftir að erfiður atburður hefur átt sér stað.

Sjálfboðaliði Rauða krossins sem sat námskeiðið sagðist vera mjög ánægður með að hafa fengið tækifæri til þess að fræðast um mikilvægi þess að vera til staðar þegar á reynir og fá leiðbeiningar um hvernig á að mæta einstaklingum sem hafa upplifað alvarlega atburði. 

Einnig kom fram það sjónarmið að svona námskeið getur einnig nýst í einkalífinu því fáir komast hjá því að mæta erfiðleikum í lífinu eða þekkja einhvern sem á um sárt að binda.